Þrír ísfisktogarar úr Síldarvinnslusamstæðunni lönduðu að loknum síðasta túr kvótaársins um nýliðna helgi og allir voru þeir með fullfermi. Bergey VE landaði í Grindavík á laugardag og það gerði einnig Jóhanna Gísladóttir GK. Vestmannaey VE landaði síðan í Eyjum á sunnudag.

Bergey og Vestmannaey voru mest með ýsu og ufsa en drýgstur hluti afla Jóhönnu Gísladóttur var karfi. Vestmannaeyjaskipin fóru allvíða í þeim tilgangi að veiða annað en þorsk en Jóhanna Gísladóttir fékk karfann á Reykjaneshrygg.

Arnar Richardsson, rekstrarstjóri Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum, segir að nýtt kvótaár leggist vel í menn og Andrés Óskarsson, hjá Vísi í Grindavík, tekur undir það. Andrés segir að þó þorskkvóti sé minni á nýbyrjuðu kvótaári en á því síðasta þá megi það ekki gleymast að það sé hellings aukning í ýsunni.

Togararnir héldu á ný til veiða strax að löndun lokinni og fjórði ísfisktogarinn, Gullver NS, hélt til veiða á laugardag að lokinni löndun á Seyðisfirði sl. fimmtudag.