„Ég held að ég geti fullyrt að þetta voru síðustu tonnin sem fóru héðan af Skipaskaga,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, um söluna á Ebba AK sem keyptur var nýlega af Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði með tilheyrandi aflaheimildum.

Vilhjálmur tekur strax fram að á engan hátt sé að sakast við eiganda útgerðarinnar sem seldi Ebba með sínum 160 þorskígildistonnum.
„Eymar Einarsson, harðjaxl með meiru, sem er búinn að vera í þessu frá því að hann var unglingur og byggja þessa útgerð sína upp hörðum höndum, er kominn á áttræðisaldurinn,“ bendir Vilhjálmur á. Verkalýðsfélagið hafi einmitt heiðrað Eymar og bróður hans, Einar skipstjóra, fyrir framlag þeirra til samfélagsins á sjómannadaginn í júní.
„En auðvitað er þetta áhyggjuefni fyrir okkur Akurnesinga sem vorum árið 2014 þriðja stærsta verstöð landsins. Hér var landað 170 þúsund þorskígildistonnum það ár. Hér var Haraldur Böðvarsson að greiða um eða yfir fimm milljarða í laun,“ rifjar Vilhjálmur upp stöðuna fyrir aðeins rúmum áratug.
Lifðu heimsstyrjaldir en ekki framsal
„Það er í raun sorglegt að sjá hvernig hefur farið fyrir okkur hvað þetta varðar,“ heldur Vilhjálmur áfram. „Fyrirtæki eins og Haraldur Böðvarsson, sem var stofnað 1906, lifir af tvær heimsstyrjaldir en þarf að lúta í lægra haldi fyrir því fyrirkomulagi sem gildir varðandi fiskveiðistjórnunarkerfið okkar. Það er bara framsalskerfið sem gerir það að verkum að svona fer fyrir okkur og fleiri sveitarfélögum.“
Þannig segir Vilhjálmur að á Akranesi, sem eitt sinn hafi verið ein stærsta verstöð landsins með gríðarlega öflug sjávarútvegsfyrirtæki, bæði til sjávar og í fiskvinnslu, sé eiginlega engin vinnsla í gangi.
„Brim er með loðnuhrognavinnslu og síðan er Norðanfiskur sem er mest í laxi. Eini fiskurinn sem hér var landað á þessu ári fyrir utan Ebbann var í raun bara það sem kom frá strandveiðibátunum,“ segir Vilhjálmur. Þessi fiskur hafi verið seldur á markaði og fluttur annað til vinnslu.
Engin hér til að kaupa

Þessari þróun verður að sögn Vilhjálms ekki snúið við úr þessu. „Við töpuðum þessari orrustu þegar HB Grandi fór endanlega með alla vinnsluna til Reykjavíkur,“ segir hann.
Með sölunni á Ebba má því segja að afar langri og farsælli útgerðarsögu á Akranesi sé nánast lokið, aðeins eru smábátar eftir.
„Ebbinn er búinn að skila ófáum tonnum og skapa hér umtalsverðar gjaldeyristekjur fyrir íslenskt þjóðarbú. Enda var Eymar einstaklega fengsæll skipstjóri, harðduglegur og ég ber ómælda virðingu fyrir þeim manni. Það er ekki gaman að sjá aflaheimildirnar fara úr sveitarfélaginu en það er einfaldlega enginn eftir hér til að kaupa slíkar heimildir, enda engin vinnsla í gangi,“ bendir Vilhjálmur á.
Þótt aflinn úr Ebba hafi síðustu árin verið fluttur frá Akranesi til löndunar annars staðar segir Vilhjálmur að hann hafi skilað bænum miklu. „Það voru menn um borð sem höfðu virkilega góðar tekjur hjá Eymari. Hann var líka með menn í beitningu þegar hann var að róa á línunni. Þannig að hann var að skapa nokkur stöðugildi.“
Ræddi áföllin við ráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra átti fund með Vilhjálmi á miðvikudaginn í síðustu viku, fyrst og fremst til að ræða alvarlega stöðu vegna yfirvofandi tolla ESB á framleiðslu járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Verði af þeim áformum munu þau mögulega hafa áhrif á félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness og á rekstur Grundartangahafnar.
„Ég fór yfir þessa sögu; hvernig við Akurnesingar höfum þurft að þola hvert áfallið á fæti öðru. Mér er það algerlega til efs, eins og ég sagði við utanríkisráðherra, að það væri eitt einasta sveitarfélag á Íslandi sem hafi orðið fyrir jafn miklum búsifjum hvað varðar atvinnumál eins og við Akurnesingar. Ég rakti hvaða fyrirtæki hafa horfið úr okkar sveitarfélagi á síðustu tíu árum,“ segir Vilhjálmur um skilaboð sín til ráðherra á fundinum. Hann hafi meðal annars nefnt Sementsverksmiðjuna, Ísfisk, Laugafisk og HB Granda. Hjá Skaganum 3X hafi starfað 128 manns fyrir gjaldþrot í fyrra en starfsmennirnir séu í dag um þrjátíu í endurreistu fyrirtæki.
Ógna tilvist járnblendisins
„Ráðherra hlustaði og skildi mínar áhyggjur. Pólitíkin þarf að verja atvinnugreinarnar. Hún þarf að standa með landsbyggðinni; þar verða hin raunverulegu verðmæti til í íslensku samfélagi. Útflutningsgreinarnar eru að stórum hluta úti á landsbyggðinni. Ég lagði mikla áherslu á að standa vörð um rekstrarskilyrði fyrirtækja þannig að þau geti vaxið og fjölgað störfum og borgað fólki góð og mannsæmandi laun. Þetta er ekkert flóknara en þetta,“ heldur Vilhjálmur áfram.
„Við erum að lenda í því upp á Grundartanga með þessu tollaævintýri Evrópusambandsins að þar er verið að ógna tilvist þess fyrirtækis. Landsvirkjun hefur verið að hækka raforkuverð til þessara fyrirtækja umtalsvert á liðnum árum sem getur skekkt samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja gagnvart fyrirtækjum í Noregi og víðar,“ ítrekar Vilhjálmur sem kveður utanríkisráðuneytið vinna hörðum höndum að því að reyna að finna lausn á tollamálinu.
„Evrópusambandið getur ekki lagt hér reglugerðir og álögur á íslensk fyrirtæki og við eigum að fara eftir því í gegnum EES-samninginn ef við eigum síðan ekki að njóta þess á hinum endanum. Það er að mínu mati og fleiri brot á EES-samningnum,“ segir Vilhjálmur.
Bætur vegna afblásinnar vertíðar

Fyrir dyrum standa málaferli vegna þeirrar ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi matvælaráðherra, í júní 2023 að stöðva hvalveiðar daginn áður en þær áttu að byrja. Umboðsmaður Alþingis sagði síðar ákvörðunina hafa verið ólögmæta. Hvalur hf. hyggst stefna ríkinu og Verkalýðsfélag Akraness stefnir Hvali vegna tapaðra tekna þeirra sem áttu að starfa á hvalvertíðinni þetta sumar.
„Við gerðum þetta í eins mikilli sátt við Hval og við gátum,“ segir Vilhjálmur um prófmál sem verði höfðað. „Það er alveg ljóst að þeir sem þarna voru búnir að ráða sig á vertíðina voru mættir á svæðið. Þeir urðu fyrir miklum búsifjum; sumir voru búnir að leigja íbúðina sína og urðu fyrir miklu tekjufalli. Menn gerðu ráð fyrir því að fá að standa þessa vertíð og voru mættir á planið.“
Umtalsverð fjárhæð
Vinni Verkalýðsfélag Akraness þetta prófmál gegn Hvali hf. segir Vilhjálmur það skapa grundvöll fyrir skaðabótakröfu fyrir Hval hvað þennan þátt varði fyrir utan annað fjárhagslegt tjón sem fyrirtækið hafi orðið fyrir vegna ákvörðunar matvælaráðherra.
Varðandi það á hvaða grunni krafa verkalýðsfélagsins sé reist segir Vilhjálmur að stuðst við meðaltalslaun á fyrri hvalvertíðunum.
„Yfir hávertíðina voru menn með vel á aðra milljón króna í laun og í heildina eru þetta á annað hundrað manns. Ætli það sé ekki bara best að segja að í heildina sé þetta umtalsverð fjárhæð,“ segir formaður Verkalýðsfélags Akraness.