Lundey NS kom til Vopnafjarðar laust fyrir hádegi í dag með um 700 tonna afla sem var svo til eingöngu síld. Þar með er úthlutuðum kvóta náð og veiðum uppsjávarveiðiskipa HB Granda á norsk-íslenskri síld og makríl lokið að þessu sinni, að því er fram kemur á vef HB Granda.


Arnþór Hjörleifsson, skipstjóri á Lundey, segir að í þessari síðustu veiðiferð hafi hann verið austan við Þórsbankann, djúpt undan landi.


,,Við áttum aðeins eftir ófarnar um 15 sjómílur að lögsögumörkunum á milli Íslands og Færeyja en þaðan eru 180 mílur til Vopnafjarðar,“ segir Arnþór. Hann er ánægður með stærð og ástand síldarinnar.


,,Þetta er með stærstu síld sem við höfum séð. Meðalvigtin er ríflega 400 grömm og síldin er feit og vel haldin. Það varð aðeins vart við makríl þarna úti en magnið sem við fengum er óverulegt.“


Að sögn Arnþórs gengu síld- og makrílveiðarnar vel að þessu sinni sem fyrr. Sjá nánar á vef HB Granda .