Fiskistofa hefur tilkynnt að strandveiðar á norðvestursvæði (A) verði stöðvaðar frá og með morgundeginum, 19.júní. Áætlað er að þá verði búið að veiða hámarkskvótann sem er 858 tonn. Á vef Fiskistofu er núna í dag skráður 717 tonna afli á þessu svæði.

Strandveiðimenn á öðrum svæðum er víðs fjarri því að nálgast hámarkið hjá sér. Þannig hafa bátarnir á norðursvæði (B) veitt 344 tonn af 611 tonna hámarkskvóta.

Á norðaustursvæði (C) er aðeins búið að veiða 188 tonn af 661 tonna leyfilegum afla. Og á suðursvæði (D) hafa veiðst 216 tonn af 525 tonna hámarki.

Rétt er að nefna að mikið var óveitt í maímánuði af leyfilegum kvóta á svæðum B, C og D og fluttist afgangurinn yfir á júnímánuð sem gerði það að verkum að bátarnir hafa úr meiru að spila en venjulegum mánaðarskammti.