Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda skora eindregið á sjávarútvegsráðherra að auka aflaheimildir í þorski um 40 þúsund tonn strax eftir hrygningarstopp. Samtökin leggja einnig til að aukningin verði samsvarandi í öðrum kvótabundnum tegundum.
Í bréfi samtakanna til ráðherra er hvatt til að aukning aflaheimilda verði bundin þeim kvöðum að afla verði landað á fiskmarkaði innanlands.
Samtökin telja mjög brýnt að auka aflaheimildirnar svo fljótt sem verða má þar sem þær séu nú á þrotum og fyrirsjáanlegt að neyðarástand skapist í greininni með tilheyrandi uppsögnum starfsfólks á sama tíma og miðin séu full af fiski.