Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda – SFÚ, sem voru þátttakendur í starfshópi um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, lýsa fullum stuðningi við tilboðsleiðina sem Þorkell Helgason og Jón Steinsson kynntu, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá samtökunum.
SFÚ skora á stjórnvöld að leggja báðar leiðir, tilboðsleiðina og samningaleiðina, í þjóðaratkvæðagreiðslu til að ná sátt við þjóðina, eiganda auðlindarinnar. Þá kveðst SFÚ ásamt öðrum hagsmunaaðilum hafa lagt til að allur óunninn afli yrði seldur á markaði eða markaðsverð á innlendum fiskmörkuðum yrði látið ráða í beinum viðskiptum.
Sömu aðilar lögðu til að í lög verði sett ákvæði um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu þar sem óheimilt yrði, út frá samkeppnissjónarmiðum, að fénýta aflaheimildir til niðurgreiðslu á hráefni í eigin vinnslur.