Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) lýsa yfir ánægju með greinargerð og tillögur þeirra Ólínu Þorvarðardóttur, Samfylkingu, og Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, VG, sem þær sendu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra varðandi fiskveiðistjórnunarfrumvarpið.
Ein af tillögum þeirra er að lögskyldað verði að bjóða óunninn fisk til sölu á innlendum uppboðsmarkaði. Telur SFÚ það gríðarlega mikilvægt til að efla og tryggja atvinnu, sem ekki sé vanþörf á í núverandi atvinnuleysi á landinu.
Jafnframt tekur SFÚ undir tillögur sjómannasamtakanna um fjárhagslegan aðskilnað milli veiða og vinnslu og að fiskverð í beinum viðskiptum tengist markaðsverði.
SFÚ telur að í tillögum Ólínu og Lilju Rafneyjar, nái þær fram að ganga, felist mikilvæg skref í átt að auknu jafnræði og eðlilegu samkeppnisumhverfi í fiskvinnslu. Tillögurnar séu réttlátar, sanngjarnar, einfaldar og gagnsæjar ásamt því að bera það með sér að almannahagur hafi verið hafður að leiðarljósi í stað verndar sérhagsmuna fárra aðila.