„Fiskeldi á að byggja upp á sjálfbæran hátt, en þess þarf þó að gæta að óraunhæfar kröfur um áhættu og gjaldtöku hamli ekki um of nýsköpun og framþróun greinarinnar,“ segja Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi í umsögn um lagereldisfrumvarpið sem nú er til meðferðar á Alþingi.

Samtökin segjast löngum hafa lagt áherslu á að efla samkeppnishæfni íslensks fiskeldis og skapa forsendur fyrir sjálfbærum framleiðnivexti sem skili sér í auknum þjóðhagslegum verðmætum.

„Það verður gert með umbótum í stjórnsýslu fiskeldis, hvötum til fjárfestinga í nýsköpun og umhverfisvænni lausnum, innviðauppbyggingu ásamt einföldu og skilvirku regluverki og starfsumhverfi rekstraraðila. Þá  þarf að tryggja aukið framboð og aðgengi að grænni orku til landeldis og almennra orkuskipta og styrkja stoðir menntunar í lagareldi heildstætt,“ segir SFS á vefsíðu sinni.

Taka rekstrarstöðu ekki til greina

Þá segir SFS að í frumvarpinu séu fjöldamörg nýmæli sem samtökin telji að geti stuðlað að því að framangreindum markmiðum verði náð, þó áhöld séu um tiltekin ákvæði þess.

„Samtökin telja að gjald vegna fiskeldis í sjó, eins og það ser sett fran í frumvarpinu, taki ekki til greina rekstrarlega stöðu íslenskra fiskeldisfyrirtækja og muni að óbreyttu skaða samkeppnishæfni í alþjóðlegu tilliti,“ segir SFS.

Að sögn SFS eru áhrif frumvarpsins ekki nægjanlega ljós. Það endurspeglast meðal annars í því að ráðherra sé falið mikið vald við ákvarðanatöku og setningu stjórnvaldsfyrirmæla um atriði sem varði mikilsverða hagsmuni rekstrarleyfishafa.

Óhóflega íþyngjandi stjórnsýsluviðurlög og þvingunarúrræði

„Drög að stjórnvaldsfyrirmælum liggja í meginatriðum ekki fyrir og því skortir á fyrirsjáanleika fyrir rekstrarleyfishafa um hvernig regluverki fyrir atvinnugreinina verður í reynd háttað nái frumvarpið fram að ganga. Um er að ræða þýðingarmiklar ákvarðanir fyrir einstaka rekstrarleyfishafa og framþróun lagareldis sem atvinnugreinar, einkum ákvæði sem mæla fyrir um heimildir til skerðinga á eignar- og atvinnuréttindum rekstraraðila,“ segir í umsögn SFS.

Samtökin gera athugasemd við það sem þau kalla fjölda víðtækra og óhóflega íþyngjandi stjórnsýsluviðurlaga og þvingunarúrræða sem til standi að innleiða með frumvarpinu. „Samtökin telja fjölda, eðli og samspil þessara ákvæða ekki geta samræmst viðmiðum sem almennt gilda um íþyngjandi viðurlög sem eftirlitsstofnunum er heimilt að beita.“

Óhóflegar kröfur um eftirlit

Einnig segir SFS það vera sitt mat að kröfur frumvarpsins um eftirlit og tíða skýrslugerð séu bæði úr hófi og óásættanlegar með tilliti til kröfu um skýrleika laga. „Ekki er um það deilt, að traust og öflugt eftirlit er mikilvægt til að auka trúverðugleika greinarinnar. Laga- og eftirlitsumhverfið má þó ekki vera svo íþyngjandi að það hamli starfsemi rekstraraðila og skapi óskilvirkt eftirlitsumhverfi,“ undirstrikar SFS.

Samtökin segist ekki leggjast gegn lögfestingu friðunarsvæða á vísindalegum forsendum en telji af sömu ástæðu ótímabært að lögfesta friðun svæða sem skilgreind voru með auglýsingu nr. 460/2004 um friðunarsvæði.

Fótum troði ekki stjórnarskrárvarin réttindi bótalaust

„Ekkert þeirra svæða sem lagt er til að friða í frumvarpinu hefur verið rannsakað eða metið sérstaklega með tilliti til áhrifa fiskeldis. Jafnvel þó tekið sé undir mikilvægi þess að tryggja ákveðna fjarlægð milli eldissvæða og laxveiðiáa skiptir einnig máli að gætt sé meðalhófs við afmörkun á umfangi friðunar þannig að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem að er stefnt,“ segir SFS.

„Þrátt fyrir að samtökin taki undir að rétt sé að eftirláta rekstraraðilum það verkefni að komast að samkomulagi sín á milli um tilhögun smitvarnarsvæða telja samtökin ótækt að ætla slíkum viðræðum að fara fram undir ógn um niðurfellingu rekstrarleyfa. Mikilsverð stjórnarskrárvarinn réttindi lögaðila verða ekki fótum troðin bótalaust,“ segir SFS um áform varðandi smitvarnarsvæði.

Endurskoði íþyngjandi ákvæði til samræmis við gildistíma

Þá segist SFS að gefnu tilefni taka fram að samtökin hafi ekki sérstaklega kallað eftir því að rekstrarleyfi til fiskeldis verði ótímabundin.

„Mestu máli skiptir að rekstraraðilum sé tryggður stöðugleiki og fyrirsjáanleiki þegar kemur að rekstrarheimildum sínum og að reglur um endurnýjun þeirra hvíli á málefnalegum forsendum og samrýmist grundvallarreglum um jafnræði og meðalhóf. Samtökin benda þó á að ef til álita kemur að breyta frumvarpinu á þá leið að rekstrarleyfum verði áfram markaður tiltekinn gildistími verður ekki framhjá því litið að fjöldamörg íþyngjandi ákvæði frumvarpsins eru mótuð með tilliti til varanleika rekstrarleyfa. Samhliða slíkum breytingum verður því að fara fram endurskoðun til mildunar á samhangandi heimildum til eignaskerðinga, stjórnsýsluviðurlaga og áformum um aukna gjaldtöku.“

Ósjálfbærir sleppilaxar séu ekki lagðir að jöfnu við villta laxa

Þá skal nefna að SFS gerir athugasemd við skilgreiningu á hugtakinu villtir nytjastofnar lax.

„Skilgreiningin felur í sér að sjálfbærir villtir laxastofna og ósjálfbærir nytjastofnar sem haldið er upp með sleppingum veiðiréttarhafa eru lagðir að jöfnu. Óeðlilegt er að leggja þessa verndarhagsmuni að jöfnu í áhættumati erfðablöndunar sem frá upphafi hefur verið ætlað að standa vörð um sjálfbæra villta laxastofna,“ segir SFS í umsögn sinni.

Nánar má lesa um umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á sfs.is.