Samtök fyrirtækja í sjávarútveg birta harðorða yfirlýsingu á heimasíðu sinni í dag þar sem ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um tímabundna stöðun á veiðum á langreyðum er mótmælt. Í yfirlýsingunni segir að SFS geri alvarlegar athugasemdir við þá stjórnsýslu sem felist í fyrirvara- og fordæmalausri ákvörðun um stöðvun á veiðum á langreyðum.
Ráðherra snýst hugur
„Rök ráðherrans lúta að þessu sinni að dýravelferð. Þær aðferðir sem beitt sé við veiðarnar standist ekki óskilgreindar kröfur um velferð dýra, óásættanlega margir hvalir þjáist of lengi. Hvergi kemur fram í lögum hver séu ásættanleg viðmið í þessum efnum þegar kemur að hvalveiðum og álitamál er hvort hvalveiðar falli undir lög um velferð dýra því um þær gilda sérlög. Matvælaráðherra sagði sjálfur fyrir um mánuði síðan að ekki væri lagalegur grundvöllur til að stöðva veiðar á langreyðum og til þyrfti lagabreytingar með aðkomu Alþingis. Nú hefur ráðherranum snúist hugur á grundvelli tveggja blaðsíðna álits fagráðs, sem breytir í engu fyrrgreindum rökum.“
Í yfirlýsingu SFS segir að veiðar á langreyðum séu eins og aðrar veiðar á villtum dýrum og feli í sér áhættu og dauðastríð.
„Markmið veiða er alltaf að fella dýrið, ef frá eru taldar veiðar til skemmtunar á villtum laxi. Það að fella dýr er ekki alltaf auðvelt – og allra síst á sjó. Leyfishafar hvalveiða hafa hins vegar sýnt vilja í verki til þess að leita leiða til að bæta aðferðir við veiðarnar með athugun á nýrri tækni svo draga megi frekar úr þjáningu dýrsins. Það er vel.“
Þá verði ekki fram hjá því litið að með ákvörðun sinni skeyti ráðherra engu um lífsviðurværi þeirra ríflega 150 starfsmanna sem hafa atvinnu af umræddum veiðum, auk allra þeirra sem þjónusta starfsemina, beint og óbeint. Hinar samfélagslegu kveðjur séu því kaldar.
Stjórnvöld láti af pólitískum skammtímahagsmunum
„Það hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda um langa hríð að nýta beri sjávarauðlindir við Ísland – sett hefur verið skýr löggjöf sem tryggir að veiðarnar séu sjálfbærar, byggðar á vísindalegum grunni, lúti eftirliti og séu í samræmi við alþjóðalög. Íslendingar hafa lengi dregið fram lífið með því að nýta þessar auðlindir. Atvinnuréttindi við veiðar eru aukinheldur tryggð í stjórnarskrá. Þegar stjórnvöld hrófla við þessum stjórnarskrárvörðu réttindum þarf mikið að koma til. Meðalhófs þarf að gæta svo fótunum sé ekki kippt undan fólki og velsæld þjóðar í skiptum fyrir pólitíska skammtímahagsmuni.
Það er ljóst að deilan um veiðar á langreyðum snýst ekki lengur um hvað sé forsvaranlegt út frá sjálfbærri nýtingu, heldur hvað fólki finnst. Það getur verið erfitt að takast á um tilfinningar, enda sýnist sitt hverjum, eins og vonlegt er. Stjórnvöld verða hins vegar, nú sem fyrr, að horfa til vísindalegra og lagalegra forsendna þegar kemur að veigamiklum ákvörðunum um nýtingu auðlinda, veiða við Ísland, og láta um leið af sínum eigin tilfinningum og pólitísku skammtímahagsmunum.