Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva skorar á ríkisstjórnina að hefja nú þegar vinnu við að útfæra nánar tillögur Endurskoðunar- og sáttanefndar um samningaleið í sjávarútvegi sem felur í sér samninga við sjávarútvegsfyrirtæki um langtíma nýtingu aflaheimilda og endurúthlutun.

Þetta kemur fram í ályktun aðalfundar SF sem haldinn var föstudaginn 24. september. Minnt er á að í skýrslu sáttanefndar til sjávarútvegsráðherra komi fram að víðtæk sátt hafi náðst um að áfram skuli byggt á aflamarki við stjórn fiskveiða. ,,Það er afar mikilvægt að vel takist til um framhald málsins og nauðsynlegt að fulltrúar sjávarútvegsfyrirtækja komi þar að málum með beinum hætti, enda er um tilverugrunn fyrirtækjanna að tefla,“ segir í ályktuninni.

Bent á að mikilvægi sjávarútvegs og annarra útflutningsgreina hafi aukist mikið í kjölfar efnahagshrunsins. Það eigi því að vera kappsmál stjórnvalda að halda frið við atvinnugreinina í stað þess að boða ráðstafanir sem geri nær ómögulegt fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi að marka sér framtíðarsýn við ríkjandi aðstæður.

Aðalfundur SF ítrekaði einnig andstöðu sína gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. ,,Fiskimiðin umhverfis Ísland eru ein mikilvægasta náttúruauðlind okkar og ein af grunnundirstöðum íslensks efnahags.  Forræði yfir fiskimiðunum og öðrum mikilvægum hagsmunum má ekki undir nokkrum kringumstæðum afsala í aðildarviðræðum við Evrópusambandið,“ segir í ályktuninni.