Sex ríki, Kólombía, Ekvador, Mexíkó, Nígería, Níkaragua og Portugal, eru tilgreind í skýrslu NOAA, haffræði- og veðurstofnunar Bandaríkjanna, um lönd sem stunda ólöglegar, óskráðar eða stjórnlausar veiðar.

Stofnunin býðst til þess að vinna með stjórnvöldum þessara ríkja við að koma hlutunum í rétt horf innan tveggja ára. Ef ríkin taka sig ekki á eiga þau á hættu að bann verði sett við innflutningi á sjávarafurðum þeirra til Bandaríkjanna og að skipum þeirra verði úthýst í bandarískum höfnum.

Í skýrslu um sama efni sem NOAA gaf út árið 2013 voru tíu ríki á svarta listanum: Kólombía, Ekvador, Gana, Ítalía, Kórea, Mexíkó, Panama, Spánn, Tansanía og Venesúela. Á þeim tveimur árum sem liðin eru síðan eru þrjú ríki ennþá á listanum, Kólombía, Ekvador og Mexíkó. Frá þessu er skýrt í tímaritinu World Fishing, en ekki er þess getið hversu langan frest til viðbótar NOAA gefur þessum ríkjum.