Stöðugar brælur hafa einkennt loðnuvertíðina og spáin er vond næstu daga. Töluvert er eftir af kvótanum og vestanganga loðnunnar er talin vera forsenda þess að útgefnar aflaheimildir náist, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

„Staðan er þannig að við sjáum fram á viku brælu og töluverður kvóti er eftir. Þegar komið er fram á þennan tíma í veiðunum fyrir sunnan held ég að við verðum að setja allt okkar traust á vestangöngu,“ sagði Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, í samtali við Fiskifréttir er hann var beðinn að meta stöðuna á loðnuvertíðinni.

Í gærmorgun var komin bræla á veiðisvæði loðnuskipanna úti af Þjórsárósum. Í fyrradag var hins vegar ágætisveiði í Eyrarbakkabugtinni og langleiðina vestur undir Þorlákshöfn, að sögn Helga Valdimarssonar skipstjóra á Sighvati Bjarnasyni VE.

„Þetta var mest veiði úr einni torfu en það voru fleiri torfur austar. Það hefur víða verið loðna með suðurströndinni en hún er alveg komin að hrygningu. Við bindum vonir við að geta farið að veiða úr vestangöngu í næstu viku ef veðrið lagast einhvern tímann,“ sagði Helgi.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.