Stjórnvöld í Noregi ætla að herða baráttuna gegn innreið hnúðlaxa í ár landsins. Þau hafa ákveðið að verja 28 milljónum norskra króna, jafnvirði um 357 milljóna íslenskra króna, til að verjast hinum ágenga vágesti.

Þetta kemur fram í Fiskeribladet. „Markmið ríkisstjórnarinnar er að takmarka útbreiðslu hnúðlaxa eins mikið og frekast er unnt,“ hefur miðilinn eftir Tore O. Sandvik, loftslags- og umhverfisráðherra.

Meiriháttar ógn færi sig upp á skaftið

Þá er haft eftir yfirvöldum í Tromsfylki and Finnmörku að nákvæmlega 249.496 hnúðlaxar hafi verið fjarlægðir í norskum vatnsföllum í fyrra og að til þess hafi ýmsum aðgerðum verið beitt. Nú eigi að verja meira fé til að berjast gegn þessari óæskilegu tegund.

Fiskeribladet segir hnúðlaxinn vera meiriháttar ógn við villta laxastofna. Á árinu 2023 hafi veiðst 183 tonn af hnúðlaxi í sjó við Noreg. Það hafi verið í fyrsta sinn sem meira hafi veiðst af hnúðlaxi en villtum Atlantshafslaxi í fjörðum landsins.

Aðgerðir hafi skilað góðum árangri

„Aðferðirnar sem beitt var í fyrra voru mjög árangursríkar og sýndu að það er hægt að ná þessu markmiði. Nú eflum við þessar aðgerðir,“ segir Sandvik um fyrrnefnda fjárveitingu.

Þá segir Fiskeribladet einnig frá því að í fréttatilkynningu stjórnvalda komi fram að lokað hafi verið fyrir laxveiði í mörgum stórum ám í sumar vegna metlélegrar göngu hrygningarlaxa í þessar ár. Á sama tíma og laxagöngur dragist saman hafi fjölda hnúðlaxa stöðugt fjölgað síðan 2017. Búist sé við nýrri og stórri innrás hnúðlaxa á næsta ári.

Eins og kunnugt er gengur hnúðlaxa jafnan í ár á tveggja ára fresti til hrygningar þannig að vorið 2025 er von á hnúðlöxum sem gengu til sjávar sem seiði nú í vor eftir hrygningu sumarið 2023. Gildir það bæði um Noreg og Ísland.