Fellt hefur verið niður sakamál á hendur Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, og þremur öðrum lykilstarfsmönnum fyrirtækisins vegna gruns um brot gegn lögum um gjaldeyrishöft. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í samtali við mbl.is.
Forsaga málsins er sú að húsleit var gerð á skrifstofum Samherja á Akureyri og í Reykjavík í mars árið 2012 að kröfu Seðlabanka Íslands og hald lagt á mikið magn gagna. Í kjölfarið var fyrirtækið kært fyrir meint brot á lögum um gjaldeyrishöft. Leggja þurfti hins vegar fram nýja kæru þar sem ekki reyndist refsiheimild fyrir hendi vegna lögaðila. Lagði Seðlabankinn því fram kæru á hendur Þorsteini Má og þremur öðrum lykilstarfsmönnum, segir ennfremur á mbl.is.
Í frétt á visir.is segir Þorsteinn Már Baldvinsson málið hafa haft gríðarlegt tjón í för með sér fyrir fyrirtækið en rannsóknin stóð yfir í á fjórða ár.