„Það er bara yfirvofandi gos og óvissa um framhaldið. En við höfum verið að landa fjórum sinnum úr Vésteini í tveimur túrum, samtals hátt í 50 tonn. Það er mokfiskirí hérna rétt fyrir utan og það hefur bara gengið prýðilega að vinna úr þessum afla. Þetta er góður og þéttholda vertíðarfiskur, 5-7 kílóa fiskur sem er fljótur að fara í gegnum vélarnar,” segir Stefán Kristjánsson hjá Einhamri í Grindavík.
Einhamar gerir einnig út systurbátana Gísla Súrsson GK og Auði Vésteins SU sem hafa verið við veiðar í Breiðafirði.
Slægir með sínu fólki
Stefán segir að mikill hugur sé í starfsmönnum í vinnslunni og þeim þyki augljóslega vænt um fyrirtækið. Sjálfur er hann mættur inn á gólf klukkan sjö á morgnana og slægir fisk hvað af tekur með sínu fólki. Hann segir samt óvissu ríkja um framhaldið. Bátar Einhamars hafa verið að landa í vinnslur í Breiðafirði hjá Sjávariðjunni Rifi og Hraðfrystihúsi Hellissands. Þessi fiskur hefur verið unninn fyrir ferskfiskviðskiptavini Einhamars. Stefán segir að þarna sé um viðskiptasambönd til áratuga að ræða og viðskiptavinir hafi skilning á þeim fordæmalausu aðstæðum sem sjávarútvegsfyrirtæki í Grindavík standa frammi fyrir.
„Það er bara beðið eftir okkur en það verður samt ekki þannig til margra ára. Viðskiptasamböndin bíða skaða og þeim meiri eftir því sem þetta dregst á langinn.“
Allur afli báta Stakkavíkur sem ekki fer á markað er unninn hjá Nýfiski í Sandgerði fyrir viðskiptavini Stakkavíkur. Í vinnslu Þorbjarnar er verið að flaka fisk og salta og sama má segja um Vísi sem hefur komið sér upp vinnslu í húsnæði Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í Helguvík. Stefán segir þetta sérstaka tíma svo vægt sé til orða tekið.