Velta Samherja, langstærsta sjávarútvegsfyrirtækis Íslendinga, nam tæpum 90 milljörðum króna á árinu 2013. Yfirburðir Samherja sjást best á því að annað stærsta sjávarútvegsfyrirtækið, HB Grandi, velti ,,aðeins“ um 32 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýbirtri úttekt tímaritsins Frjálsrar verslunar.

Í nýjustu Fiskifréttum er birtur listi yfir stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins sem fenginn er úr samantekt Frjálsrar verslunar um stærstu fyrirtæki landsins árið 2013.

Velta Samherja í fyrra er nánast sú sama og á árinu 2012 en árið 2011 velti Samherji um 80 milljörðum. Hagnaður fyrirtækisins eftir skatta nam 21,9 milljörðum króna í fyrra samanborið við 15,7 milljarða árið áður. Sérstaða Samherja ræðst ekki síst af miklum umsvifum í sjávarútvegi erlendis.

HB Grandi er kvótahæsta fyrirtæki landsins og það stærsta af þeim sem starfa eingöngu á heimavettvangi. Velta HB Granda nam 31,7 milljörðum króna í fyrra sem er sama tala og árið áður. Hagnaður HB Granda eftir skatta var 5,8 milljarðar króna.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.