Marúlfur er annað heiti yfir steinbít. Svo heitir líka fiskvinnsla í Dalvík sem hefur sérhæft sig í vinnslu á óhefðbundnum tegundum til útflutnings á erlenda markaði, þar á meðal hlýra, steinbít, tindaskötu og þorshrognum.
Um 20 manns starfa hjá Marúlfi ehf. og að sögn Guðmundar St. Jónssonar framkvæmdastjóra hefur full vinnsla verið flesta daga ársins í húsinu. Marúlfur var stofnaður í byrjun árs 2013 í kjölfar gjaldþrots Norðurstrandar ehf. Norðurströnd var sérhæft vinnslufyrirtæki í steinbítsafurðum sem keypti hráefni bæði ferskt á fiskmörkuðum innanlands og heilfryst, aðallega frá Noregi. Norðurströnd var ekki aðeins stærsti framleiðandi steinbítsafurða hér á landi heldur sennilega einnig í allri Evrópu. Hráefnið í þessar afurðir er líklega 80-90% hlýri og 10-20% steinbítur. Marúlfur hefur haldið þessari sérstöðu sem nær allt aftur til ársins 1989. Vægi hlýra og steinbíts í framleiðslunni hefur þó minnkað og aðrar tegundir komið til, eins og ufsi sem er unninn allt árið og svo vinnsla á grásleppu og hrognum með þær vertíðir standa yfir. Einnig er unnið talsvert af tindaskötu.
Frakkar borga vel
“Engu að síður erum við eina húsið á landinu sem er með sérhæfða vinnslu á hlýra og steinbít. Við skerum flakið niður í porsjónir og vinnum hnakka úr afurðinni. Fyrir einu og hálfu ári voru söluerfiðleikar á hlýra en nú hefur það lagast en á móti kemur að hráefnisverð erlendis hefur hækkað gríðarlega í verði. Það hefur leitt til þess að dregið hefur úr vinnslunni,” segir Guðmundur Jónsson, framkvæmdastjóri Marúlfs.
Megnið sem selt er á mörkuðum innanlands er steinbítur sem er smærri en hlýrinn, sem kallast líka steinbítsbróðir, og nýtist ekki eins vel í þá vinnslu sem Marúlfur stundar. Helstu markaðir fyrir hlýraafurðirnar eru Frakkland og Þýskaland, einkum stórverslanir en dýrari afurðir fara inn á veitingastaði í Frakklandi.
“Frakkarnir eru tilbúnir að borga vel fyrir hnakkann en Þjóðverjar gera síður greinarmun á sporði og hnakka.”
Vinnsla á hinum afurðunum hefur bæst við á undanförnum fjórum árum og fyllt upp í það skarð sem minni hlýravinnsla skildi eftir sig.
Engin samkeppni við kvótaeigendur
“Áður vorum við í hefðbundnari vinnslu eins og á þorski og ýsu. En við höfum ákveðið að sérhæfa okkur meira og vera ekki í því sama og stóru húsin. Sérhæfing á þessu tagi kallar á góða þekkingu á mörkuðum. Við erum með samninga við sölufyrirtæki í Frakklandi og Þýskalandi og svo seljum við líka í gegnum sölufyrirtæki á Íslandi. Marúlfur á engan kvóta og kaupir allan fisk á mörkuðum. Við erum því ekki samkeppnishæfir við stóra aðila sem eiga kvótann, eiga auðveldara með að stýra sinni vinnslu og fá jafnvel ódýrara hráefni á verðlagsstofuverðum meðan við greiðum alltaf markaðsverð fyrir allan fisk. Þetta er eitthvað sem við höfum alltaf búið við en það sem við vildum sjá er að allur fiskur færi á markað þannig að allir sætu við sama borð. Það væri draumastaðan og eðlilegast upp á verðmyndun. Við erum oft með samninga við báta, sem við sækjumst reyndar ekkert sérstaklega eftir en þurfum að gera til þess að tryggja okkur hráefni. Samt sem áður segi ég að best væri að allur fiskur færi í gegnum markað þannig að allir hefðu jafnan aðgang og verðmyndun yrði sem réttust,” segir Guðmundur.
Í dag er ufsinn fyrirferðarmestur í vinnslunni hjá Marúlfi. Á síðasta ári stóð hann undir 40-50% vinnslunnar. Hann er unninn í roðlaus flök með beini í 9 kg öskjur. Ufsinn fer að mestu til Kanaríeyja og Tyrklands. Hótel sem bjóða gistingu með fæði bjóða gjarnan upp á ufsa.
“Ufsinn er ódýr afurð. Við vinnum upp undir 800 til 1.000 tonn á ári og helminginn kaupum við í beinum viðskiptum og afganginn á mörkuðum.“
Tindaskata á Frakkland og Belgíu
Í öllum tegundum vinnur Marúlfur um 1.500 tonn af afurðum á ári. Sumar eru vinnuaflsfrekari en aðrar eins og til dæmis tindaskatan. Hráefnið er ódýrt en afköstin í vinnslu ekki mikil. Auk þess er nýtingin ekki nema 25%. Þannig að þrátt fyrir að hráefnið sé ódýrt stendur vinnslan ekki undir því að kaupa tindaskötu á fjarlægum stöðum þar sem flutningurinn getur tvöfaldað hráefnisverðið. Tindaskatan er meðafli, mest á línubáta, og miðað við framboðið á mörkuðum er talið nokkuð víst að töluverðu af henni sé hent. Tindaskatan er börðuð, roðflett og lausfryst. Hún er aðallega seld á markaði í Frakklandi og Belgíu og þykir mikið góðgæti. Mest hafa verið unnin á einu ári 800 tonn af tindaskötu upp úr sjó hjá Marúlfi sem gefur 200 tonn af afurðum.
Mikil eftirspurn eftir þorskhrognum
Þorskhrognavertíðin stendur sem hæst og var mikið um að vera í vinnslusal Marúlfs við hreinsun og flokkun á hrognunum. Vertíðin nær fram í lok apríl og skarast þá við grásleppuvertíðina sem hefst í lok mars. Á þessu ári stefnir í að Marúlfur vinni um 200 tonn af lausfrystum þorskhrognum. Helstu markaðir eru Þýskaland og Spánn og er eftirspurnin mikil núna. Verð er frekar upp á við miðað við á síðasta ári.
Guðmundur segir umhverfið þó ekki hagstætt fiskvinnslu um þessar mundir. Hátt gengi krónunnar geri útflutningsfyrirtækjum á Íslandi mjög erfitt fyrir.