Tveir sérfræðingar á Hafrannsóknastofnun rita grein í Fiskifréttir í dag þar sem þeir gagnrýna rökstuðning og málsmeðferð sjávarútvegsráðherra vegna umdeilds banns við veiðum með dragnót í sjö fjörðum.
,,Ef vernda á viðkvæmt botndýralíf verður að banna veiðar með öllum veiðarfærum. Að loka fyrir einu veiðarfæri eins og dragnótinni er aðeins yfirvarp til að réttlæta úthýsingu hennar á einhverjum öðrum forsendum,” segja greinarhöfundarnir Haraldur A. Einarsson fiskifræðingur og veiðarfærasérfræðingur og Guðrún G. Þórarinsdóttir sjávarlíffræðingur.
Þau segja að gagnrýnin á dragnótina sé í langflestum tilfellum órökstuddar fullyrðingar en ekki staðreyndir sem byggðar séu á rannsóknum.
,,Við ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á lokunum svæða fyrir dragnót, var ekki haft samráð við þá sérfræðinga sem kynnu eitthvað að hafa um málið að segja. Aðeins ein fyrirspurn barst Hafrannsóknastofnuninni frá ráðuneytinu varðandi það aflamagn sem tekið var af dragnótabátum á viðkomandi svæðum sem loka átti. Með öðrum orðum, aðeins var skoðaður einn umhverfisþáttur, þ.e. veiðimagn dragnótar á tilteknum tíma á viðkomandi svæðum, sem á að réttlæta lokun á stórum svæðum til verndar á botndýralífi! Þessi vinnubrögð geta vart talist til eftirbreytni og alls ekki sem kallast gæti góð stjórnsýsla.
Sjá nánar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.