Þriðja skemmtiferðaskip sumarsins kom til Ísafjarðar í byrjun vikunnar og það næsta er væntanlegt 18. maí. „Svo fer þetta að verða nánast daglega,“ segir Hilmar Kristjánsson Lyngmo, hafnarstjóri á Ísafirði. Þrátt fyrir hörð viðbrögð skipafélaganna vegna ákvörðunar Alþingis um nýtt 2.500 króna innviðagjalds á dag á hvern farþega skemmtiferðaskipa segir Hilmar fjölda bókana fyrir sumarið vera svipaðan og í fyrra.

„Stórútgerðirnar sögðu að það væri ekki hægt að afbóka ferðir sem væri búið að borga,“ útskýrir hann. Á næsta ári fækki skipunum um tuttugu og síðan sé spurning hvað taki við árið 2027 og eftir það.

Bókanir bara hættu

Hilmar Kristjánsson Lyngmo, hafnarstjóri Ísafjarðarbæ. Mynd/Ísafjarðarbær
Hilmar Kristjánsson Lyngmo, hafnarstjóri Ísafjarðarbæ. Mynd/Ísafjarðarbær

„Ég hef séð gögn frá Faxaflóahöfnum sem sýna að um leið og umræðan um innviðagjaldið byrjaði í haust þá bara hættu bókanir á Íslandi, það er bara beint strik eftir það,“ segir Hilmar.

Bókaðar komur skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar fyrir árið 2027 eru nú að sögn Hilmars 104 talsins. „Það er ekki alveg útséð með hvernig þetta þróast en til samanburðar þá eru komnar yfir 190 bókanir í sumar þannig að það er nokkur munur á,“ segir hann.

Ekki hægt að versla við Ísland með engan fyrirsjáanleika

Nýverið hefur Hilmar sótt ráðstefnur um skemmtiferðaskipageirann í Miami og Kaupmannahöfn þar sem fulltrúar skipafélaganna hafa tekið þátt.

„Maður er að minnsta kosti aðeins bjartsýnni eftir þessar tvær ferðir en ég var áður á að þetta verði ekki alveg eins svart og var sagt við mann fyrst. Ég held að menn séu aðeins búnir að jafna sig. Mönnum brá bara að sjá þetta fara svona í gegn og sögðu að það væri ekki hægt að versla við Ísland ef það væri enginn fyrirsjáanleiki,“ segir Hilmar sem á mánudaginn bókaði þrjár skipakomur sumarið 2029.

Átta hundruð krónur verða tíu þúsund

„Menn eru að skipuleggja sig þrjú eða fjögur ár fram í tímann og verðleggja og selja ferðir miðað við það. Og svo kom þetta svona með sama og engum fyrirvara, og ekki nein smáhækkun, úr 800 krónum fyrir klefann upp í 2.500 krónur á haus,“ segir Hilmar og nefnir í þessu sambandi skipið Aida þar sem margir Þjóðverjar með fjölskyldur séu. „Þá fer skatturinn á klefana kannski úr 800 krónum á klefann og upp í tíu þúsund krónur.“

Hilmar segist halda að það sem sett hafi menn út af laginu hafi fyrst og fremst verið hversu brátt innleiðingu þessa gjalds bar að frekar en upphæðin sjálf. Tekjur af skemmtiferðaskipum skipta feiknamiklu máli fyrir Ísafjarðarhöfn. „Það hefur verið fjárfest hér fyrir einn og hálfan milljarð í hafnarmannvirkjum. Hjá okkur eru skemmtiferðaskipin 75 prósent af tekjum hafnarinnar,“ segir hafnarstjórinn.