„Það er búið að vera ótrúlega mikið að gera í alveg fjögur ár. Það hefur ekki verið eitt einasta hlé, sama hvort það er vetur eða sumar,“ segir Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur. Nú séu hins vegar blikur á lofti.

„Það er ekkert að frétta hjá útgerðarmönnum fyrir veturinn um  að þeir séu að fara í framkvæmdir eða endurbætur á skipum. Það er risabreyting frá í fyrra. Það er bara ekkert að frétta fyrir haustið,“ segir Þráinn um útlitið framundan.

Gjöldin bíta

„Það eru náttúrlega veiðigjöldin sem eru að bíta í þá og þeir eru bara ekki að fara að gera neitt,“ heldur Þráinn áfram.

„Svo er náttúrlega líka búið að hækka eftirlitsgjöldin á fiskeldisfyrirtækin þannig að þau eru að draga verulega saman og halda í við sig í viðhaldi og eru ekki að endurnýja neitt í skipunum nema bara það sem bilar. Það er reyndar að verða ár síðan þeir skelltu eiginlega alveg í lás,“ segir Þráinn. Það sé því mikil breyting orðin. „Ríkisstjórnin virðist hafa tekið mína kúnna út fyrir sviga og skattlagt þá.“

Sem fyrr segir hafa síðustu fjögur ár verið harla góð hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur og það á sínar skýringar.

Hefur bjargast þótt útlitið sé dauft

Skipasmíðastöð Njarðvíkur. FF Mynd/HAG
Skipasmíðastöð Njarðvíkur. FF Mynd/HAG
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

„Það hefur verið gróska í útgerðinni og mikil uppbygging í gegn um laxeldið þannig að við höfum verið með mikið af fiskeldisbátum. Það hefur líka árað vel í ferðaþjónustunni þannig að hvalaskoðunarfyrirtækin eru búin að vera að setja hellings pening í endurbætur og viðhald á sínum skipum sem eru orðin ansi mörg. Svo eru það náttúrlega dráttarbátar sem hefur farið fjölgandi og mun fjölga áfram,“ segir Þráinn.

Að sögn Þráins eru á bilinu 30 til 35 fastir starfsmenn hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur. „Svo erum við með mjög mikið af undirverktökum þannig að þetta er yfirleitt á bilinu 40 til 50 manns sem eru hjá okkur,“ segir hann.

Spurður hvaða áhrif versnandi verkefnastaða kunni að hafa á mannahaldið segir Þráinn það verða að koma í ljós. „Eftir fjögur góð ár þá lítur út fyrir að það verði töluverður samdráttur en við höfum nú áður séð að það dragi saman og styttist í að verkefnalistinn klárist en svo bjargast þetta nú oft. En ég sé fram á daufasta haust í mörg, mörg ár.“