Norsk sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtæki sitja nú undir sífellt ágengari kröfum um að fullvinna meira af sínum afurðum heima fyrir.

FishUpdate segir frá því að kröfurnar eru ekki síst sprottnar af umræðunni um umhverfismál – loftslagsvandann – en einnig eru þær efnahagslegs eðlis. Þetta fer saman því um leið og fyrirtæki minnka sótspor sitt skapa þau atvinnu fyrir hundruð manna. Þar segir að í Bretlandi séu flutningar með óunnið hráefni kallað China Traffic en í Noregi eru þessir flutningar oft kallaðir Kinaffic – svo algengir og útbreiddir eru þeir. Um er að ræða flutninga á þúsundum tonna af sjávarfangi til vinnslu í fjarlægum löndum sem svo koma aftur til upprunalandsins í kunnuglegum neytendaumbúðum.

Sendur heim sem ferskvara

FishUpdate vísar í störf blaðamannsins Arne Hjeltnes sem sagði frá því nýlega á ráðstefnu í Tromsö að á tveimur árum – 2013 og 2014 – voru 700.000 tonn af fiski – eldisfiski og villtum – sent frá Noregi óunninn. Þegar þessi fiskur kemur á markað í Evrópu er hann oft og iðulega merktur sem „ferskvara“, sem sé í raun rangt og villandi fyrir neytendur.

Eins sé það misskilningur að þörf sé á þessum miklu flutningum á hráefni frá Noregi vegna kostnaðar – með tæknibyltingunni sé þvert á móti hagfelldast að vinna hann í upprunalandinu. Hjeltnes, sem einnig hefur starfað sem markaðsfræðingur og ráðgjafi sjávarútvegsfyrirtækja, sagði við miðilinn nordlys.no að fyrirtæki í Noregi séu að vakna til vitundar um þennan vanda. Tók hann dæmi af fiskeldisfyrirtækinu Lerøy Seafood, sem innan tíðar opnar nýja fiskvinnslu í Båtsfjord í Finnmörku, nyrst í Norður-Noregi.