Matvælastofnun tók á móti sendinefnd frá Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Kasakstan í dag. Erindi sendinefndarinnar er að framkvæma úttekt á fisk-, kjöt- og mjólkurframleiðslu hérlendis til að íslenskir útflytjendur fái leyfi til að flytja vörur sínar til Tollabandalags Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan.

Tíu úttektarmenn frá Tollabandalaginu munu á næstu tveimur vikum heimsækja íslensk fiskvinnslufyrirtæki, sláturhús, mjólkurstöðvar, fiskeldisstöðvar, svínabú og sauðfjárbú. Einnig mun hópurinn heimsækja rannsóknastofur og skoða framkvæmd við útgáfu heilbrigðisvottorða hjá Matvælastofnun.

Matvælastofnun hefur í nokkurn tíma unnið að undirbúningi þessarar úttektar í samvinnu við systurstofnun sína í Rússlandi. Fjöldi íslenskra matvælafyrirtækja hefur að undanförnu óskað eftir leyfi til útflutnings inn á markað Tollabandalagsins, en útflutningsleyfið er háð niðurstöðu úttektar sendinefndarinnar.

Fjölmörg önnur fyrirtæki hafa þegar leyfi til útflutnings á þennan markað og munu sum þeirra einnig fá skoðun af hálfu sendinefndarinnar.

Sjá nánar á vef Matvælastofnunar.