Um miðjan desember var gefin út reglugerð um bann við selveiðum hér við land og gildir bannið um veiðar á öllum selategundum.
Fiskistofa getur þó veitt leyfi til takmarkaðra veiða á sel „til eigin nytja innan netlaga þar sem veiðar hafa verið eða verða stundaðar sem búsílag“, en öll sala og markaðsfærsla á íslenskum sel og selaafurðum er nú bönnuð.
Leyfin verða bundin því skilyrði að allur afli sé skráður og að Fiskistofu verði sendar árlega skýrslur um sókn og afla.
Þá getur Fiskistofa afturkallað leyfi ef Hafrannsóknastofnun telur það nauðsynlegt eða ef leyfishafi uppfyllir ekki skilyrði leyfisins.