Hafrannsóknastofnun leggur til að beinar veiðar á landsel verði áfram takmarkaðar og að gripið verði til frekari aðgerða til að draga úr meðafla landsels við netaveiðar. Það sé gert svo stofnstærð nái aftur stjórnunarmarkmiðum stjórnvalda.

Nýtt mat á stofnsstærð landsels við Ísland og ráðgjöf varðandi veiðar var birt í vikubyrjun. Ráðgjöf byggir á mati á stærð landselsstofnsins við Ísland sem Hafrannsóknastofnun, í samvinnu við Selasetur Íslands, hefur nýlega lokið vinnu við og byggir á talningum sem fram fóru sumarið 2020. Í ráðgjöfinni er, auk takmarkana á veiðum, jafnframt lagt til að reynt verði að takmarka möguleg truflandi áhrif af athöfnum manna á landsel, sérstaklega yfir sumarið þegar kæping og háraskipti eiga sér stað.

69% færri

Í umfjöllun Hafrannsóknastofnunar segir að stofninn er metinn vera um 10,300 dýr sem er 69% færri dýr en árið 1980 þegar fyrstu talningar fóru fram. Matið sýnir um níu prósent fjölgun í stofninum frá árinu 2018 þegar sambærilegt stofnstærðarmat var síðast unnið. Benda niðurstöður undanfarinna ára til þess að stærð stofnsins sé að sveiflist nálægt sögulegu lágmarki. Samkvæmt stjórnunarmarkmiðum stjórnvalda fyrir landsel við Ísland skal lágmarks stofnstærð vera 12.000 selir.

Niðurstöður stofnmatsins sem eru 14% undir þessum markmiðum krefjast því áframhaldandi aðgerða til að ná þeim.

Veiði og sala bönnuð

Reglugerð um bann við selveiði var innleidd 2019. Samkvæmt henni eru allar selveiðar óheimilar í sjó, ám og vötnum nema að fengnu sérstöku leyfi frá Fiskistofu til selveiða til eigin nytja. Öll sala á íslenskum sel og selaafurðum er einnig bönnuð.

Afföll vegna óbeinna veiða, eða meðafli við fiskveiðar, eru metin umtalsverð og líklegt talið að helsta dánarorsök íslenskra landsela sé vegna þess.

Takmörkuð gögn eru til um óbeinar veiðar, en mat sem unnið er úr gögnum sem safnað er af veiðieftirlitsmönnum og úr stofnmælingu með þorskanetum bendir til að á árunum 2014‐2018 hafi að meðaltali veiðst 1.389 landselir árlega í grásleppunet. Metinn meðafli landsels í þorskanet og botnvörpu er mun minni og mun meiri óvissa er í kringum matið í þau veiðarfæri.

Mannaferðir

Rannsóknir hafa sýnt að truflun manna nálægt mikilvægum selalátrum og kæpingarsvæðum getur haft neikvæð áhrif á landsel og leitt til að þeir breyta útbreiðslu sinni, ásamt því valda streitu meðal dýra.

Slíkt getur með óbeinum hætti haft neikvæð áhrif á kópaframleiðslu, atferli og velferð stofnsins. Samfara aukinni ferðamennsku er því talið brýnt að efla rannsóknir á áhrifum mannaferða á selastofna og hvernig lágmarka má slík áhrif.