Þrír norskir selfangarar, Kvitbjörn, Merediana og Havsel, eru nú á leiðinni í Vesturísinn, sem er svæðið djúpt norður af Íslandi milli Jan Mayen og Grænlands.

Heimilt er að veiða 21.000 dýr í ár á þessum slóðum og þar sem veiðiskipin verða aðeins þrjú talsins er útilokað að kvótinn náist. Gríðarleg aukning hefur á síðustu árum orðið í vöðuselastofninum sem kallaður er Grænlandselur á málum nágrannaþjóðanna.

Í Fiskeribladet/Fiskeran er haft eftir selafræðingi að selurinn haldi sig á svipuðum slóðum og í fyrra og ísaðstæður sömuleiðis svipaðar.

Eins og við höfum áður greint frá er ætlunin að reyna að telja selina á þessu svæði með hjálp dróna (ómannnaðra flygilda). Tilraunir í þá veru voru gerðar í lok marsmánaðar og tókust vel.