Norski selfangarinn Havsel er kominn í Vesturísinn, sem er svæðið langt norðan Íslands milli Jan Mayen og Grænlands. Havsel er eini báturinn sem stundar selveiðar á þessum slóðum í ár. Prýðisgott veður var á miðunum þegar báturinn kom þangað síðastliðinn sunnudag og var selur dreifður út um allt, að því er Björne Kvernmo skipstjóri tjáði Fiskeribladet/Fiskaren.
Skinn af ungum blöðrusel er dýrast og eftirsóttast en blöðruselurinn er friðaður annað árið í röð í Vesturísnum og því verða skipverjar að einbeita sér að vöðuselnum sem Norðmenn kalla grænlandssel. Síðastliðinn mánudag var Havsel staddur í grænlenskri lögsögu vestan við Jan Mayen á 71 gráðu og 30 mínútum norður og var að undirbúa sig að hefja veiðar.