Norski selfangarinn Havsel hefur lokið selveiðum þetta árið í Vesturísnum, en það er svæðið langt norðan Íslands milli Jan Mayen og Grænlands kallað. Báturinn fór tvær ferðir og veiddi fjögur þúsund seli í fyrri ferðinni en sjö hundruð í þeirri síðari.
Björne Kvernmo skipstjóri á Havsel kveðst í samtali við Fiskerkibladet/Fiskaren vera mjög ánægður með vertíðina að þessu sinni, veður hafi verið hagstætt, veiðarnar gengið vel og engin óhöpp orðið. Úthaldið skilaði því hagnaði í ár en undanfarin ár hefur því ekki verið að heilsa. Gríðarmikið var af sel á svæðinu, bæði blöðrusel og vöðusel. Skýringin á því hversu miklu minna veiddist í seinni túrnum en þeim fyrri er sögð sú að færri hafi verið í áhöfn bátsins.
Havsel er eini norski báturinn sem verið hefur á selveiðum á þessu ári. Minnkandi stuðningur hins opinbera við veiðarnar hefur orðið til þess að ekki þykir lengur borga sig að stunda þær. Til stóð að eitt norskt selveiðiskip færi í ár til veiða í Austurísnum sem er svæðið austast í Barentshafi en af því varð ekki.