Umami tilkynnti í vikunni að dótturfyrirtæki þess, Baja, hefði selt og afgreitt bláuggatúnfisk fyrir um 50 milljónir dollara, um 5,9 milljarða íslenskra króna, frá eldisstöð sinni í Mexíkó. Verð á kíló hefur hækkað um 38% frá síðasta ári, að því er fram kemur á vef SeafoodSource.
Slátrun á túnfiskinum hjá Baja hófst seinni hlutann í ágúst og lauk í síðustu viku. Slátrun hjá Kali Tuna, túnfiskeldi Umami í Króatíu, hefst væntanlega í desember og stendur fram í byrjun mars 2012.
Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum eiga Íslendingar hlut í túnfiskeldinu og Íslendingurinn Óli Steindórsson er stjórnarformaður og framkvæmdastjóri hjá Umami.
Haft er eftir Óla að góður árangur hjá Baja sé enn eitt dæmið um að samruni Kali og Baja hafi verið farsælt skref á sínum tíma. Umami geti nú boðið viðskiptavinum túnfisk átta mánuði á ári í stað þriggja mánaða áður.