Margir fiskimenn á bátum frá Hvide Sande við vesturströnd Jótlands eru að missa þolinmæðina vegna ágengni sela sem hirða eða eyðileggja stóran hluta netaafla þeirra og grafa undan rekstrargrundvelli útgerðanna.
Einn sjómannanna, Lars Fjord, lýsir því svo að af 1500 kílóa afla af þorski sem rúmast hefði í 60 kössum hefði aðeins verið hægt að fara með rúmlega 100 kíló í 4 kössum á fiskmarkaðinn. Hitt hefði verið ónýtt vegna selbits. Á uppboðinu hefðu fengist jafnvirði 460 íslenskra króna fyrir kílóið af þorskinum eða 46.000 ISK fyrir aflann í stað 690.000 ISK ef aflinn hefði verið heill.
Allar tilraunir sjómanna til þess að forðast selinn, svo sem að leggja netin misgrunnt, á mismunandi botni eða á mismunandi tímum sólarhrings, hafa engum árangri skilað. Þeir telja nauðsynlegt að selum verði fækkað um helming með skipulögðum aðgerðum, en gera sér grein fyrir að torsótt geti orðið að fá fylgi stjórnmálamanna og almennings við þá aðferð. Eina von þeirra virðist því vera sú að einhver veiki taki sig upp í selunum þannig að þeir sjái um niðurskurðinn sjálfir.