,,Við teljum að bann Evrópusambandsins við sölu á selaafurðum innan ESB ríkjanna stríði gegn reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og höfum við óskað eftir óháðu mati á vegum WTO,” segir Jonas Gahr Störe utanríkisráðherra Noregs.

Viðræður Norðmanna við ESB hafa ekki borið neinn árangur og því er gripið til þessa ráðs en í síðasta mánuði fóru Kanadamenn sömu leið.

Bann við viðskiptum með selaafurðir í ESB-ríkjunum tók gildi 20. ágúst í fyrra.

Norski sjávarútvegsráðherrann, Lisbeth Berg-Hansen segir að hér sé um að ræða grundvallarrétt Norðmanna til þess að nýta auðlindir sjávar á sjálfbæran hátt og koma vörunum á markað hvort sem um sé að ræða sjávarspendýr eða fisk.

Norðmenn, eins og Kanadamenn, fullyrða að selastofnarnir séu ekki í neinni hættu.