Tíu bandarísk fyrirtæki, þeirra á meðal nokkrar stórmarkaðskeðjur, hafa verið sektuð fyrir að krefja neytendur í Wisconsin í Bandaríkjunum um of hátt verð fyrir sjávarafurðir.
Algengt er að sett sé íshúð á sjávarafurðir áður en þeim er pakkað til þess að varðveita gæði vörunnar meðan hún er í geymslu eða flutningi. Þetta er lögleg aðferð en hins vegar er ólöglegt samkvæmt bandarískum lögum að þyngd íshúðarinnar sé innifalin í þyngd vörunnar á merkimiðanum.
Stofnun neytendaverndar í Bandaríkjunum kveðst gera sér vonir um að þetta mál verði öðrum fyrirtækjum í sölu og dreifingu frystra sjávarafurða víti til varnaðar.