Í tilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun í gær segir að seinni hvalurinn hafi verið blendingur langreiðar og steypireiðar, rétt eins og fyrri hvalurinn sem var dreginn að landi 7. júlí.

Eftir að hvalurinn var kominn í land ákvað stofnunin að hefja strax rannsóknir til að geta staðfest með erfðafræðilegum aðferðum hvort þessi hvalur væri blendingur langreyðar og steypireyðar, eins og bráðabirgðaniðurstaða starfsmanns benti til.

Þeirri vinnu er nú lokið og staðfesta greiningarnar að um blending sömu tegunda var að ræða. Faðirinn er augljóslega langreyður rétt eins og hjá fyrri blendingnum, samkvæmt upplýsingum frá Hafró, en frekari rannsóknir þarf til að staðfesta að móðirin sé örugglega steypireyður.

Þetta er að sögn Hafró sjötti blendingur þessara tegunda sem veiðst hefur hér við land, en sá fyrsti sem staðfestur var með erfðafræðilegum aðferðum veiddist sumarið 1983.

Venjulega hefur stofnunin beðið með slíkar athuganir þangað til í vertíðarlok, en að þessu sinni var ákveðið að flýta greiningu erfðasýna vegna mikillar umræðu í samfélaginu.

[email protected]