Landeldisfyrirtækið GeoSalmo í Þorlákshöfn hefur unnið að þremur aðskildum málum undanfarið ár til undirbúnings fyrirhugaðri starfsemi. Hafin var jarðvinna fyrir eldisstöðina, unnið var að hönnun og bestun stöðvarinnar þar sem lögð var mikil áhersla á allan verkfræðilegan undirbúning að byggingu hennar, og loks er fyrirtækið að reisa seiðaeldisstöð í Landssveit sem áætlað er að hefji rekstur í sumar.
Jens Þórðarson, forstjóri GeoSalmo, segir að í nýju seiðaeldisstöðinni verði hægt að framleiða um það bil tvær milljónir 100 gramma seiða á ári. „Þetta eru allt góðir áfangar en auk þess erum við núna fjármögnunarferli. Við ætlum að ná í meira fjármagn til þess að halda áfram með stóra verkefnið í Þorlákshöfn,“ segir Jens.
Umhverfismat upp á 24.000 tonn
Viðskiptablaðið greindi frá því nýlega að Geo Salmo vinni að því að sækja að minnsta kosti 40 milljónir evra, eða um 6 milljarða króna, í nýtt hlutafé. Þá hefur Geo Salmo fengið vilyrði fyrir lánssamning upp á ríflega hundrað milljónir evra, eða sem nemur hátt í 15 milljörðum króna, frá DNB, Arion banka og Eksfin. Fjármagnið verður nýtt til að standa undir fyrsta fasa framkvæmda sem felur í sér framleiðslu á allt að 7.800 tonnum af laxi. Félagið er með land og innviði til þess að auka framleiðsluna upp í tugi þúsunda tonna. Umhverfismatið nú hljóðar upp á framleiðslu á 24.000 tonnum á ári. „Þetta hefur verið langt og strangt ferli en það stefnir allt í rétta átt. Ég er bjartsýnn en það tekur langan tíma að koma þessu öllu saman.“
Stefnt er að því að hefja byggingarframkvæmdir við eldisstöðina í Þorlákshöfn með haustinu. Í heildina mun það taka um tvö ár að reisa fyrsta áfangann en reksturinn hefst um það bil einu og hálfu ári eftir að byggingarframkvæmdir hefjast. Eins og fyrr segir ætlar Geo Salmo að hefja seiðaframleiðslu í sumar og segir Jens að eftirspurn sé eftir laxaseiðum víða og framleiðslan verður fyrsta kastið seld innanlands. Það yrðu þá fyrstu tekjur félagsins frá stofnun.
Óvissa í alþjóðaviðskiptum
„Það þyrfti mjög háþróaða spádómsgáfu til að geta sér til um hvernig framtíðin lítur út markaðslega miðað við þróun alþjóðastjórnmála upp á síðkastið. Eitt er þó ljóst – heimurinn þarf á mat að halda hvað sem öllu öðru líður. Við verðum líka að búast við því að fram komi lausnir sem hægt er að una við án þess að varan sé verðlögð út af markaði. Lax er frábær vara og mikil eftirspurn eftir honum. Ég hef trú á því að það finnist haldbetri lausnir í alþjóða viðskiptum en háir tollar. Vissulega skapar ástandið núna óvissu. Ég held samt að fátt sé öruggara í framleiðslu í svona óvissuástandi en umhverfisvæn matvælaframleiðsla. Það hriktir sennilega meira í stoðum í öðrum geirum en matvælaframleiðslu,“ segir Jens.
Hann segir að Evrópa sé stærsti einstaki útflutningsmarkaður fyrir lax og Kína sé einnig spennandi markaður. „En fram hjá því verður ekki litið að Bandaríkjamarkaður er mikilvægur fyrir Ísland og mjög eftirsóknarvert að geta flutt út ferskan fisk til Bandaríkjanna með skipum. Það skapar okkur ákveðna stöðu sem við ættum að forðast með öllum ráðum að gefa eftir,“ segir Jens.
Lífræni úrgangurinn
Landeldisfyrirtækin standa öll frammi fyrir þeirri áskorun hvernig eigi að meðhöndla lífrænan úrgang frá stöðvunum. Jens segir að Geo Salmo sé fiskeldis fyrirtæki en muni leita sér samstarfsaðila sem sérhæfi sig í framleiðslu áburðar eða lífgass úr lífrænum úrgangi. „Það verður til mikið magn af lífrænum úrgangi sem þarf að koma fyrir. Fyrir einhverja eru þetta verðmæti en ég býst ekki við því að þetta verði tekjustofn fyrir Geo Salmo. Við erum í samtölum við nokkra samstarfsaðila sem hafa áhuga á því að taka við lífræna úrganginum, jafnvel okkur að kostnaðarlausu. Þegar landeldi á Íslandi er komið í framleiðslu á tugum tonna finnst markaðslausn á þessu,“ segir Jens.