Sjó­manna­fé­lag Íslands, Sjó­manna- og vél­stjóra­fé­lags Grinda­vík­ur og VM Fé­lag vél­stjóra og málm­tækni­manna hafa sent frá sér sameiginlega tilkynningu vegna viðræðuslita við SFS í gær.

Þar segir:

„Sjómenn hafa verið samningslausir í 21 mánuð og reynt hefur verið til þrautar að ná kjarasamningi, en óbilgirni útgerðarmanna, hroki og græðgi koma í veg fyrir að samningar náist. Aðalkrafa stéttarfélaga sjómanna hefur verið að sama sé greitt fyrir sjómenn í lífeyrissjóð og aðra landsmenn. Þessu hafa útgerðarmenn algjörlega hafnað en tjáð forystumönnum sjómanna að það sé í lagi þeirra vegna að sjómenn greiði sjálfir fyrir hækkun í lífeyrissjóð t.d með því að greiða hluta af auðlindagjöldum útgerðamanna. Það kostar útgerðarmenn 1,5 milljarð á ári að greiða það sama í lífeyrissjóð fyrir sjómenn og aðrir landsmenn fá.“

Félögin tiltaka eftirfarandi vegna viðræðuslitanna og þeirra ástæðna sem SFS hefur tiltekið vegna þeirra – sem lesa má um hér.

„Samkvæmt forystumönnum þeirra hefur útgerðin ekki efni á þessu þrátt fyrir eftirfarandi staðreyndir:

· Þegar samið var um aukið mótframlag í lífeyrissjóði lækkaði ríkið tryggingagjaldið á móti, líka á útgerðarfyrirtæki. Útgerðarfyrirtæki borga um 600 milljónum minna í tryggingagjald en þau gerðu á árinu 2016 þrátt fyrir þessa ráðstöfun frá ríkinu vilja þau ekki hækka mótframlag í lífeyrissjóð til sjómanna.

· Hreinn hagnaður útgerðarfyrirtækja á árunum 2010-2019 voru rétt tæpir 209 milljarðar. · Frá árinu 2017 hefur bókfært virði eignarhluta útgerða og tengdra eignarhaldsfélaga þeirra dótturfélaga og síðan dótturfélaga tengdra eignarhaldsfélaga, aukist um tæpa sextíu milljarða króna.

· Heildarvirði eignarhlutanna í öðrum félögum en félögum tengdum sjávarútvegi er 177 milljarðar.

· Þegar Síldarvinnslan fór á hlutabréfamarkað á þessu ári græddi einn forstjóri útgerðarfélags 600 milljónir eins og hendi væri veifað. Það er staðreynd að útgerðarfyrirtæki stórgræði, það er staðreynd að eigendur þeirra stórgræði og það er staðreynd að eigendur fyrirtækjanna vilja fjárfesta í flestu nema sínu starfsfólki. Þau vilja eignast Ísland og auðlindir okkar án þess að greiða fyrir það,“ segir í tilkynningunni og niðurlag tilkynningarinnar er eftirfarandi:

„Það er staðreynd að útgerðarfyrirtæki stórgræði, það er staðreynd að eigendur þeirra stórgræði og það er staðreynd að eigendur fyrirtækjanna vilja fjárfesta í flestu nema sínu starfsfólki. Þau vilja eignast Ísland og auðlindir okkar án þess að greiða fyrir það.“