Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra beitir blekkingum í fréttatilkynningu sem send var út til fjölmiðla þann 3. júní sl. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem þeir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ og Friðrik G. Halldórsson, talsmaður dragnótamanna hafa sent frá sér.
Þar segir meðal annars að sjávarútvegsráðherra hafi ekki mánuðum saman orðið við ítrekuðum beiðnum dragnótamanna um fund sem fyrst var óskað eftir í júní 2009. Aldrei hafi verið haft samráð við dragnótamenn við undirbúning málsins.
Þá hafi skýrsla Hafrannsóknastofnunar um áhrif dragnótaveiða á lífríki botns í innanverðum Skagafirði verið birt löngu eftir að hún var tilbúin og hún síðan fjarlægð af vef ráðuneytisins skömmu síðar. Í skýrslunni segi orðrétt: „Þær niðurstöður sem fengust í þessari rannsókn benda ekki til að dragnótin hafi áhrif á botndýralíf í Skagafirði."
,,Væntanlega eru þetta dæmi um það sem ráðherrann hefur í huga þegar vísað er til vandaðrar, gagnsærrar og hlutlægrar stjórnsýslu,” segir í yfirlýsingunni.
Sjá nánar á vef LÍÚ, HÉR