Kræklingarækt hefur lagst af á landinu en undir það síðasta voru ræktendur einungis þrír, þ.e. Íslensk bláskel á Stykkishólmi, Strandaskel á Drangsnesi og Bergsveinn Reynisson hjá Nesskel í Reykhólasveit sem var þeirra næstsíðastur til að hætta. Hann segir kræklingabændur hafa gefist upp fyrir hinu opinbera.
Kræklingaræktendur á Íslandi hafa í gegnum tíðina oft verið á mörkum þess að styrkur þungmálmsins kadmíns sé of mikill í kræklingi. Á sumum svæðum er hann undir evrópskum viðmiðunarmörkum og annars staðar á mörkunum eða rétt yfir. Matvælastofnun gerði nokkrar mælingar síðastliðið sumar hjá Strandaseli sem leiddu í ljós að kadmín var yfir viðmiðunarmörkum og stöðvaði framreiðsluna þar. Í kjölfarið hætti fyrirtækið starfsemi. Bergsveinn segir að síðar hafi komið í ljós að ekki var staðið rétt að meðhöndlun á sýnum hjá Matvælastofnun en niðurstaðan var engu að síður látin standa.
Framleiðendur þurfa einnig að tryggja það að ekki sé þörungaeitur í skelinni. Í því skyni hafa þeir þurft að senda sýni á tólf daga fresti til Írlands á sumrin og einu sinni í mánuði á veturna. Á um tveggja ára tímabili bjó Matís yfir mælitækjum til þess að gera þessar mælingar hér heima og minnist Bergsveinn þeirra tíma með eftirsjá. Nú séu sýnin á ný send til Írlands en eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu fór að bera á því að sýni stoppuðu í tolli með tilheyrandi vandkvæðum við sölu á vörunni hér heima.
Sýnin gufa upp
„Við bentum Matvælastofnun á það að sýnin sem við sendum til Írlands gufuðu hreinlega upp. Þetta ágerðist svo bara og við bentum stofnuninni á að hún yrði að finna einhverja lausn á málinu. Lausnin fannst aldrei og þetta endaði bara með því að við gáfust allir upp,” segir Bergsveinn.
- Bergsveinn Reynisson kræklingaræktandi hjá Nesskel í Reykhólasveit. Mynd/aðsend.
Markaðurinn fyrir framleiðslu kræklingaframleiðenda hefur fyrst og fremst verið veitingahús og eftirspurnin hefur aukist í takt við fjölgun ferðamanna. Heildarframleiðslan hefur verið um 100 tonn á ári og miðað við eftirspurn telur Bergsveinn að auðveldlega hefði verið hægt að tvöfalda framleiðsluna í eðlilegu ári. Eftirspurnin hafi hentað ágætlega litlum einherjafyrirtækjum eins og kræklingaræktendur eru og þeir náð að sinna henni. En svo skall heimsfaraldurinn á og markaðurinn hrundi. Það sem þó gerði útslagið, að þeir þrír aðilar sem hafa framleitt krækling hafa lagt árar í báta, er fyrirkomulag og kostnaður vegna mælinga á þörungaeitri sem ekki eru framkvæmdar innanlands.
Þótt kræklingabændur séu hættir að sinni er engu að síður á dagskránni fundur þeirra og fulltrúa Matvælastofnunar. Bergsveinn kveðst vonast til þess að þeir mæti meiri skilningi en áður.
Bera kostnaðinn
„Það hefur verið starfandi starfshópur með fulltrúum frá ráðuneytinu, Matvælastofnun, Matís og Skelrækt sem var meðal annars ætlað að fara yfir það hvernig væri staðið að málum í öðrum löndum. Niðurstaðan var einfaldlega sú að annars staðar þurfa kræklingaframleiðendur ekki að borga sjálfir mælingarnar. Ríkisvaldið sér um þetta í öðrum löndum. Við höfum alfarið borið kostnaðinn af sýnatökum. Erlendis er viðhorfið það að málið snúist um matvælaöryggi og ríkið eigi að standa að þessum málum í stað þess að framleiðendur séu að ”gambla” með sýnin með þeim möguleika að geta sent út hvaða sýni sem þeim dettur í hug. Það er ekki til þess að auka matvælaöryggið. Í venjulegri viku var þetta kostnaður upp á 50.000 kr. hjá mér sem er hár kostnaður þegar litið er til þess að í venjulegri viku seldum við krækling fyrir um 100.000 kr. og í mjög góðri viku kannski fyrir 400.000 kr.”