Nýi dráttarbáturinn Magni, sem Faxaflóahafnir fengu Damen Shipyards til að smíða fyrir sig, fer í prófanir hjá skipasmíðastöðinni í byrjun næsta mánaðar að afloknum viðamiklum viðgerðum. Standist hann skoðun má búast við að honum verði siglt til Reykjavíkur í beinu framhaldi, að því er fram kemur í svörum Martin Verstaaten, yfirmanns sölumála Damen Shipyards í Evrópu, við fyrirspurn Fiskifrétta.
Nýr Magni kom fyrst til landsins í febrúar í fyrra en í ljós komu bilanir í aðalvél og spili auk fjölmargra annarra atriða sem sett var út á. Bátnum var síðan siglt utan til Hollands til viðgerða í fyrrasumar sem nú loks sér fyrir endann á.
Faxaflóahafnir réðust í kaup á nýjum dráttarbát í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið á skipakomum. Fjöldi skipa stóð nokkurn veginn í stað á árunum 2012-2019 en séu þau talin í brúttótonnum hefur talan liðlega tvöfaldast. Þetta þýðir að mun stærri skip voru að koma til hafnar; annars vegar stór farþegaskip og nú hefur bæst við ný kynslóð flutningaskipa á vegum Eimskips og Royal Arctic Line. Þess vegna var þörf á mun öflugari og stærri dráttarbát en hafnirnar höfðu áður haft í sinni þjónustu.
15 tilboð bárust
Faxaflóahafnir og Damen Shipyards hafa átt viðskipti áður. Í nóvember 2008 kom til landsins nýr Jötunn sem leysti eldri Jötunn af hólmi. Fyrir áttu Faxaflóahafnir þá þrjá lóðs- og dráttarbáta, alla af Damen gerð. Í september 2018 var útboð fyrir smíði á nýjum dráttarbát auglýst á evrópska efnahagssvæðinu. Faxaflóahafnir óskuðu eftir dráttarbát sem hefði 80 tonna togkraft aftur á bak og áfram. Hann átti að vera um 33 metrar að lengd og hefði tvær svokallaðar azimuth skrúfur. Í útboðslýsingu var tekið fram að verð gilti 50% og gæði tæknilegs búnaðar 50%. Bátinn skyldi afhenda eigi síðar en 15. ágúst 2020. Alls bárust 15 tilboð frá átta skipasmíðastöðvum. Hæsta tilboðið var frá CITIC Construction upp á 11.200.000 evrur, rúman 1,7 milljarð ÍSK að núvirði, en það lægsta var frá MED MARINE Holding, 5.970.000 evrur, 915 milljónir ÍSK. Tilboð Damen Shipyard, sem gengið var að, hljóðaði upp á 7.594.000 evra, 1.034.910 ÍSK miðað við sölugengi 8. Janúar 2019 og 1.163.000 ÍSK að núvirði.
Í minnisblaði Gísla Jóhanns Hallssonar yfirhafnsögumanns segir að „að mati þeirra er komu að matinu ber bátur Damen Shipyards af hvað varðar tæknilegar útfærslur og öryggi.“
Umfangsmiklir ágallar
Damen Brothers var stofnað árið 1927 af hollensku bræðrunum Jan og Rien Damen. Í dag starfa yfir 12 þúsund manns hjá fyrirtækinu víða um heim. Það hefur smíðað yfir 6.500 skip og báta og framleiðslugetan er 120 skip á ári. Damen rekur skipasmíðastöðvar 19 löndum, þ.m.t. í Póllandi, Rúmeníu, Noregi og Svíþjóð. Magni var smíðaður í Damen Song Cam skipasmíðastöðinni í Víetnam sem þýddi að sigla þurfti honum tæplega 10 þúsund sjómílna leið til Íslands með viðkomu í Singapore þar sem menguð olía var sett á tankana. Hingað kom Magni í lok febrúar og fljótlega kom í ljós að umfangsmiklir gallar voru á bátnum.
Faxaflóahafnir tóku saman lista yfir ágallana sem greint var frá í Fiskifréttum 27. ágúst 2020. Þar kom fram að listinn væri langur en þó ekki tæmandi að mati Faxaflóahafna. Það sem upp var talið og þyrfti að gera við var eldsneytisinnsprautunarkerfi aðalvélar, uppsetning á fóðringum, hreinsun á ferskvatnstönkum, leka frá útblásturskerfi sem ekki var úr ryðfríu stáli, afrétting aðalvélar, óeðlilegan gang ljósavélar og rafala, skipta þurfi um framvindu, gera við eða setja upp nýja afturvindu, gera við brunadælur sem eru ryðgaðar, leki var frá gírkassa, leki frá azimuth skrúfum, leki frá aðalloftræstiskerfi og loftræstikerfi í brú vantaði.
Kristín Soffía Jónsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna, sagði í sama blaði að heppnin hefði ekki verið með Faxaflóahöfnum í þessum kaupum. „Ábyrgðin og kostnaðurinn þessu samfara liggur ekki okkar megin. Þetta kemur reyndar mjög á óvart því Damen er mjög traust skipasmíðastöð sem við höfum átt í viðskiptum við áður. Báturinn er ennþá þeirra vara og Damen ber fulla ábyrgð.“
Bátnum var siglt til Hollands í júlí í fyrra til viðgerða sem átti að ljúka í ágúst sama ár. Viðgerðin reyndist viðameiri en upphaflega var ætlað og verklok færð aftur til desember. Enn urðu tafir, m.a. vegna heimsfaraldursins, og áætluð heimkoma sett á í febrúar á þessu ári.
„Betri“ eftir viðgerðir
Martin Verstraaten, yfirmaður sölumála Damen Shipyards í Evrópu, segir að ágallana í Magna megi einkum rekja til þriggja þátta, þ.e. mengaðrar olíu sem var sett á bátinn í Singapore, galla í hátæknivæddu vindukerfi og tölvuvæddu stjórnkerfi bátsins. Hvað varði mengaða olíu sem fór á bátinn þá sé þar ekki um galla að ræða heldur óhapp sem öll sjóför eiga yfir höfði sér. Mengunin hafi náð til eldsneytisinnsprautunarkerfisins alls, sía og eldsneytistanka. Gallar hafi verið í virkni spilanna. Nauðsynlegt hafi verið að fjarlægja þau úr bátnum, taka þau í sundur og setja saman á ný. Báturinn búi yfir mikilli sjálfvirkni sem stjórnað er af tölvukerfi sem framleitt er af þriðja aðila. Hugbúnaðurinn reyndist byggja á ótímabærri uppfærslu sem olli talsverðum vandamálum. Aðspurður um hvort Damen telji viðgerðan Magna jafngóðan kost og ef hann hefði verið afhentur í fullkomnu ástandi, segir Verstraaten:
„Það gleður okkur að upplýsa þig að við teljum Magna jafngóðan, ef ekki „betri“ dráttarbát eftir þær lagfæringar sem gerðar hafa verið á undanförnum mánuðum. Damen sýnir tiltrú sína í þessum efnum með því að lengja ábyrgð sína á bátnum og búnaði hans um allmörg ár,“ segir Verstraaten.