Gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands hefur nú afhent Samherja þau gögn sem lágu til grundvallar þegar Héraðsdómur úrskurðaði um heimild til húsleitar og haldlagningar gagna hjá Samherja og tengdum félögum þann 27. mars síðastliðinn.
Í frétt frá Samherja segir að af gögnunum sé ljóst að það sé rétt sem haldið hafi verið fram af forsvarsmönnum Samherja, að félagið hafi farið að lögum og reglum.
,,Af lestri gagnanna má ljóst vera að þær ályktanir sem gjaldeyriseftirlit Seðlabanka Íslands hefur dregið eru að verulegu leyti byggðar á rangfærslum um eðli og framkvæmd viðskipta Samherja og tengdra félaga,“ segir í yfirlýsingu Samherja.
Forsvarsmenn Samherja fordæma þá harkalegu aðgerð sem beitt hafi verið með húsleit og haldlagningu gagna. Sú aðgerð hafi þegar valdið fyrirtækinu umtalsverðu tjóni. Hæglega hefði mátt komast hjá því tjóni með fyrirspurnum til Samherja.
Seðlabankinn hefur ekki viljað tjá sig um málið að svo stöddu.