„Félagið er að skoða þetta á grundvelli þeirra réttinda sem lúta að okkar félagsmönnum og er með lögmann í því. Það er alveg ljóst að við munum leita réttar okkar í því máli,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og formaður Starfsgreinasambandsins.

Eins og fram kom fyrr í dag er það niðurstaða lögmannstofunnar Lex að ákvörðun Svandísar Svarasdóttur matvælaráðherra um að banna veiðar á langreyði út ágúst á þessu áru hvíli ekki á lögmætum grunni. Bæði fyrirtækið Hvalur hf. og starfsmenn þess kunni því að eiga rétt á greiðslu bóta frá ríkinu vegna taps sem þeir verði fyrir með ákvörðun ráðherrans.

Fáeinir dagar til stefnu

Aö sögn Vihjálms voru um eitt hundrað félagar í Verkalýðsfélagi Akraness við störf í hvalavertíðinni í fyrra. Þeir hafi haft að meðaltali um 1,8 milljón króna í mánaðarlaun í þá þrjá mánuði sem vertíðin stóð sem hæst. Alls hafi Hvalur hf. greitt 1.200 milljónir króna í laun í fyrra.

„Þarna liggja gríðarlegir hagsmunir,“ segir Vilhjálmur sem kveður menn enn vonast til þess að matvælaráðherra vindi ofan af ákvörðun sinni. „Sérstaklega núna þegar verið er að tala um að þetta standist ekki lög.“

Að sögn Vilhjálms má reikna með að ef ákvörðun ráðherra verði ekki dregin til baka í þessari viku megi eiga von á skýrri yfirlýsingu frá Hvali hf. um að vertíðin í ár verði endanlega blásin af.

„Þá eru men náttúrlega komnir með aðra stöðu,“ útskýrir Vihjálmur og eiga von á því að bótamál starfsmanna fari á hreyfingu.

Lýsir ábyrgð á hendur samstarfsflokkum

Vilhjálmur bendir á að það sé ekki aðeins lögmannstofan Lex sem telji ákvörðun ráðherra ekki standast lög. Margir þingmenn hafi tekið í sama streng.

„Það hefur komið fram hjá sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum að þeir telji þetta ekki standast,“ segir Vilhjálmur og bætir við að nú verði mjög athyglisvert að fylgjast með framvindunni.

„Menn eru alveg búnir að gefast upp enn þá. Ábyrgð samstarfsflokkanna, sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, er gríðarlega mikil í þessu máli, sérstaklega í ljósi þess að það er æði margt sem bendir til þess að hér sé um ólöglega ákvörðun matvælaráðherra að ræða,“ segir Vilhjálmur.

Að sögn Vilhjálms heimfærir hann hvalveiðibannsmálið upp á það mál sem lúti að skýrslu Fjármálaeftirlitsins um sölu á hlutabréfum í eigu ríkisins í Íslandsbanka.

Launatapið jafnt sekt Íslandsbanka

„Þar er sektin upp á 1,2 milljarða sem er nákvæmlega sama talan og launatap starfsmanna Hvals mun nema. Þingmenn og ráðherrar hafa talað um mikilvægi þess að stjórn og bankastjóri axli sína ábyrgð með því í raun og veru að víkja vegna þess að þarna voru lög brotin og reglur. Ég spyr mig því að því að ef sjálfstæðismenn og framsóknarmenn vita eða hafa sterkar grunsmemdir um að þessi ákvörðun matvælaráðherra standist ekki lög hvað þeir ætli að gera þegar dómur fellur eftir að Hvalur leitar réttar síns og þetta verður dæmt ólöglegt,“ segir Vilhjálmur.

Þannig segir Vilhjálmur að ekki sé eins það sé ekki búið að aðvara þingmenn Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokks.

„Ætla þeir þá að axla ábyrgð með sama hætti og er verið að krefja stjórn og bankastjóra Íslandsbanka um; að þau víki?“ spyr Vilhjálmur. Hann tekur fram að hann sé alls ekki að segja að þau eigi ekki að axla ábyrgð.

„En það verður þá að gilda í allar áttir þegar það er verið að brjóta lög,“ segir Vihjálmur Birgisson.