Áform ríkisstjórnarinnar um að hækka auðlindagjald í 27,0%, samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2012, jafngildir því að ríkið fari að skattleggja 116% hagnaðar útgerðarfyrirtækjanna að jafnaði, sagði Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, í erindi á aðalfundi LÍÚ í dag. Hann hefur metið áhrif boðaðrar hækkunar auðlindagjalds á sjávarútvegsfyrirtækin í ljósi upplýsinga úr ársreikningum stórs hluta þeirra og gagna frá Hagstofu Íslands um hag fiskveiða.

Sigurgeir Brynjar fullyrti að sjávarútvegsfyrirtækin þyldu engan veginn boðaða skattheimtu og þau yrðu gerð verðlaus, ef svo færi sem horfði. Hann sagði að stefnuyfirlýsing fjárlagafrumvarpsins, um að skattleggja allan hagnaðinn og meira til, jafngilti því í raun yfirlýsingu um þjóðnýtingu atvinnugreinarinnar.

Útreikningar Sigurgeirs Brynjars sýna að skattprósenta ríkisins fór upp í 70% af hagnaði útgerðarinnar (tekjuskattur + auðlindagjald) þegar Alþingi samþykkti 13,3% auðlindagjald vorið 2011. Nú boði ríkisstjórnin að bæta um betur með því að fara með auðlindagjaldið í 27% og þjóðnýta útgerðina með skattlagningu í stað fyrningarleiðar.