„Þetta er örugglega góður kostur fyrir meðal og minni sveitir sem eru ekki að fara að kaupa stóran bát sem erfitt er að manna,“ segir Högni Bergþórsson, framkvæmdastjóri sölu og þróunar á Trefjum um nýjan björgunarbát sem fyrirtækið mun smíða fyrir Björgunarsveit Hafnarfjarðar.

Högni Bergþórsson, framkvæmdastjóri sölu og þróunar á Trefjum. Mynd/Aðsend
Högni Bergþórsson, framkvæmdastjóri sölu og þróunar á Trefjum. Mynd/Aðsend

Báturinn er af gerðinni Cleopatra 32. Hann er 10,4 metra langur og 3,4 metrar á breidd. Hann er þannig talsvert minni en þeir þrettán ríflega fimmtán metra  björgunarbátar sem Slysavarnafélagið Landsbjörg er að láta smíða í Finnlandi fyrir björgunarsveitir á völdum stöðum um landið.

„Við höfum verið að smíða alls konar vinnubáta sem eru ekki fiskibátar og erum núna búnir að þróa þann bát til björgunarsveitastarfa,“ segir Högni. Verðið sé miklu viðráðanlegra heldur en það sé fyrir stóru bátana. „Hann er meira en helmingi ódýrari og alveg frábært kostur í lang flest útköll hér og þar um landið.“

Tilbúinn fyrir sjómannadaginn

Um er að ræða fyrsta björgunarsveitarbátinn sem Trefjar smíða en stuðst er við skrokk sem Trefjar hafa oft byggt á.

Högni Bergþórsson, Óskar Hafnfjörð Auðunsson, forstjóri Trefja, Guðjón Rúnar Sveinsson og Kristján Arason, frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar. MYND/AÐSEND
Högni Bergþórsson, Óskar Hafnfjörð Auðunsson, forstjóri Trefja, Guðjón Rúnar Sveinsson og Kristján Arason, frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar. MYND/AÐSEND
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Við til dæmis smíðuðum fimmtán vinnubáta fyrir olíuleitarfyrirtæki í Noregi. Þá lítur báturinn allt öðru vísi út því búnaðurinn er eðli málsins samkvæmt allt öðru vísi. Við notum sams konar skrokk en alveg gjörbreytt fyrirkomulag og útfærum hann til björgunarstarfa. Hann verður til dæmis  með togkrók, talíu til að lyfta fólki upp úr sjó og allra handa búnaði sem björgunarsveitirnar almennt eru með,“ segir Högni.

Báturinn mun taka tíu til tólf manns í sæti innandyra en Högni segir hann munu geta borið miklu fleira fólk í neyð.

„Við erum að stefna á að það verði fyrir sjómannadaginn á næsta ári,“ svarar Högni spurður hvenær áætlað sé að björgunarbáturinn verði tilbúinn. Lokahönnunin sé búin og verið sé að klára smíðateikningar.

Góður vinnuradíus

Nýi báturinn mun að sögn Högna taka á bilinu sjö til átta hundruð lítra af olíu og hafagóðan vinnuradíus, 120 til 180 sjómílur.

„Það er feikinóg fyrir allt þetta svæði sem sveitin í Hafnarfirði er að vinna á. Síðan er ekkert mál að auka olíumagnið ef þannig háttar að menn þurfi að komast yfir stærra svæði. Þeir verða líka með sína dælu og rafstöð sem er hreyfanleg, til dæmis ef verið er að hjálpa þar sem er olíuleki eða slíkt,“ segir Högni.

Sem fyrr segir telur Högni þessa nýju bátahönnun geta hentað mörgum minni björgunarsveitum sem mikið hafi verið að kaupa notaða báta frá Bretlandi eða Skandinavíu sem þarfnist stundum mikils viðhalds fljótlega.

Oft á vanbúnum bátum

„Það er það sem við erum mjög spenntir fyrir og við erum að vona að við þarna séum við komnir með góða lausn fyrir margar sveitir sem fá öruggt tæki sem hægt er að reiða sig á í því sem það er hugsað fyrir. Ef að menn eru með traust og örugg tæki þá held ég að fleiri hafi áhuga á því að vera í sveitunum og bjóða sig sem sjálfboðaliða. Og við erum náttúrlega þjónustuaðili fyrir bátana í framhaldinu,“ segir Högni.

Um sé að ræða tugi sjóbjörgunarsveita á landinu þar sem sé ekki talin þörf á nýju, stóru bátunum. „Hins vegar eru sveitirnar á þessum stöðum oft á vanbúnum bátum sem eru kannski ekki í standi þegar á þarf að halda. Víðast hvar hafa þessir bátar verið keyptir notaðir og þeir eru oft ekki mjög öflugir,“ segir Högni.

Þrengingar á mörkuðum erlendis

Varðandi verkefnastöðuna hjá Trefjum almennt nefnir Högni að fyrirtækið smíði meðal annars ker og fleira fyrir fiskeldi auk annara verkefna fyrir utan bátasmíðina.

„Við erum að afgreiða báta núna til Bretlandseyja og Noregs. En í fiskveiðum hefur staðan oft verið betri. Þessir stríðstímar og annað, það eru þrengingar á mörkuðum erlendis,“ segir Högni sem kveður erlenda markaðurinn hafa sveiflast upp í að vera allt að 90 prósent af veltunni hjá Trefjum enda sé heimamarkaðurinn lítill.  „En það er náttúrlega mjög breytilegt. Stundum eru mjög stór verkefni hérna heima og þá taka þau gríðarlega mikið þegar þau eru í gangi.“

Mikið vandamál núna segir Högni vera kvótasamdrátt í Noregi þar sem aflaheimildir hafi verið skornar niður um tuttugu prósent í ár. „Fjárfestingar þar eru miklu, miklu minni í augnablikinu. Við höfum svo sem ekki áhyggjur af því að það komi ekki aftur en það tekur bara tíma,“ segir hann.

Reyna að ná þjónustu við fiskeldið heim til Íslands

Eitt helsta viðfangsefni Trefja segir Högni verða að reyna að ná verkefnum fyrir fiskeldi hingað heim, að fiskeldisfyrirtækin séu ekki að kaupa alla þjónustu erlendis frá.

„Það hefur verið helsta áhyggjuefnið hjá okkur en það er líka mikilvægt fyrir þessa aðila að það séu aðilar hérna heima til að þjónusta þá vel,“ segir Högni. Helsta samkeppnin sé frá Noregi. „Þessir aðilar hér eru ofboðslega tengdir norskum þjónustuaðilum í gegn um samstarfsaðila sína. Og þessi fyrirtæki eru oft að kaupa lausnirnar sem liggja hjá þeim sem eru í samkeppni við þá í Noregi.“

Að sögn Högna hafa Trefjar lítið verið í smíði fyrir strandveiðar hér heima. „Bátarnir hjá okkur eru eiginlega of stórir og öflugir fyrir strandveiðar og þess vegna höfum við ekkert beitt okkur á þeim markaði. Þetta hafa verið of litlar veiðar og ég efast um að menn hreinlega geti farið í nýsmíði í þessu og látið það bera sig. En ef þeir væru að veiða 48 daga eða meira þá náttúrlega breytast forsendur.“