„Eins og 80% grásleppusjómanna er ég meðmæltur kvótasetningu grásleppu. Það var gerð könnun á viðhorfum grásleppusjómanna á vegum hóps þeirra sjálfra þegar í undirbúningi var frumvarp þáverandi sjávarútvegsráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, og þetta var niðurstaðan og hún hefur ekkert breyst,“ segir Stefán Guðmundsson grásleppusjómaður á Húsavík.
Þrjú bestu tímabilin yfir átta ár
Hann segir að könnuð hafi verið viðhorf sjómanna til kvótasetningarinnar en einnig forsvarsmanna vinnslna og annarra sem tengjast málinu; þ.m.t. sveitarfélaga eins og Stykkishólms sem á mikið undir þessum búskap. Að auki hafi ítrekað verið sendar vandaðar og viðamiklar umsagnir um málið inn í samráðsgátt; ásamt fundum í Atvinnuveganefnd og víðar; hvar málið var afgreitt á síðasta þingi.
Stefán segir kjarna málsins þann að grásleppa eins og aðrar tegundir verði felld undir það fiskveiðistjórnunarkerfi sem ákveðið hafi verið að vinna eftir. Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi skal veiðireynsla báta sem hafa stundað grásleppuveiðar metin út frá þremur af bestu veiðitímabilum undanfarin átta ár, frá og með árinu 2014 til og með árinu 2022. Ástæða þess að lagt er til að miða við þrjú bestu veiðitímabilin á þessum sex árum eru að grásleppuveiðar standa yfir í stuttan tíma og frátafir á einni vertíð geta því haft mikið að segja varðandi veiðireynslu það ár sem og sveiflur í veiðum milli svæða.
Stjórn Landssambands smábátaeigenda hefur alfarið lýst sig mótfallið kvótasetningu grásleppu. Í umfjöllun Fiskifrétta frá 13. september síðastliðinn sagði Örn Pálsson, framkvæmdastjóri samtakanna, að verði frumvarpið að lögum muni það þurrka út útgerð grásleppubáta eins og hún hefur tíðkast áratugum saman. „Við breytta veiðistjórn yrði gjörbreyting á, þar sem smábátar yrðu eins og dæmin sanna, undir í öflun veiðiheimilda. Samfara myndu veiðarnar færast í hendur fárra útgerða sem ráða myndu yfir veiðiheimildunum,“ sagði Örn.
Takmörkuð verðmæti
„Grásleppusjómenn hafa stutt aðra hópa innan LS til þess að ná fram sínum hagsmunamálum. En LS fór mjög eindregið og áberandi gegn okkar hagsmunum. LS óttast það að fari grásleppa í kvóta muni hugsanlega einhverjir aldraðir grásleppusjómenn vilja breyta til og hugsanlega örfáir grásleppubátar þá fara inn í strandveiðikerfið. Þetta er grunnforsenda þess að LS fer gegn okkur í þessu máli. Og andstaðan jafnvel keyrð áfram af mönnum sem hafa aldrei séð grásleppu og enn síður stundað veiðarnar sjálfir. Á tyllidögum tala þeir um nauðsyn nýliðunar inn í strandveiðikerfið en í raun vilja þeir halda stærstum hluta þess út af fyrir sig,“ segir Stefán. Í sömu andrá krefst LS alls fyrirsjáanleika í strandveiðum eins og alþjóð veit. Eðlilega. En ekki fyrir grásleppusjómenn. Það er enn einn brandarinn í þessu skrítna karpi.“
Stefán segir verðmæti í grásleppukvóta afar takmörkuð. Verðmæti landaðrar grásleppu undanfarin ár sýni það best. Þetta snýst fyrst og fremst um að eyða fordæmalausri óvissu og óhagræði sem við höfum mátt búa við allt of lengi. Fyrirsjáanleikinn er enginn; hvorki hjá okkur eða vinnslunni, öfugt við veiðar á öðrum tegundum. Fækkun báta á hverju ári segir sína sögu um hversu ómögulegt þetta reynist.
Óvissan rýrir verðmyndun
„Ég veit ekki beinlínis eftir hverju menn ættu að vera að slægjast með núverandi veiðistjórnun í grásleppu. Nema þá helst voninni um að hægt verði að gera út á þetta með svipuðu sniði og í aðrar tegundir. Það var jú gott verð á hrognum fyrstu daga síðustu vertíðar fyrir þá sem voru í aðstöðu til þess að senda fersk hrogn á agnarsmáan markað í Danmörku. Þetta var lítið magn og sýndi sig eftir fyrstu tíu dagana að verðið húrraði niður. Mig minnir að menn hafi verið að fá að meðaltali 160-170 krónur fyrir kílóið af heilli grásleppu,“ segir Stefán. Óvissan rýrir alla verðmyndun, öryggi og skipulag veiða og vinnslu. Sú einfalda staðreynd á við um veiðar á öllum tegundum. Mikilvægt að undirstrika í lokin að LS eru samtök Landssamtök Strandveiðimanna; ekki grásleppusjómanna og útgerða,“ segir Stefán.