Gunnar Davíðsson, deildarstjóri í auðlindadeild Troms fylkis í Noregi, segir að ríkisstuðningur við sjávarútveg í Noregi hafi verið aflagður í kringum 1990. Hann segir verðmyndun á fiski þar í landi að mestu leyti verða á frjálsum markaði byggt á ákvörðun Norges Råfisklag um lágmarksverð, með svipuðum hætti og hér gerist í gegnum verðlagsstofu skipaverðs. Í Noregi, eins og hér á landi, er talsvert af fiski flutt út óunnið til fiskvinnslufyrirtækja í Evrópu, sérstaklega yfir vetrarvertíðina.
„Þú finnur ekki marga hér í norskum sjávarútvegi sem myndu halda því fram að mikið væri um ríkisstyrki til greinarinnar og þeir sem eru í bransanum þræta allir fyrir það. Ég veit þó að það tíðkast ákveðin endurgreiðsla á vissum umhverfisgjöldum á olíu sem miðar að því að draga úr því að stærri skipin fylli tankana í Danmörku, Færeyjum og Bretlandi,“ segir Gunnar aðspurður um opinbera styrki til sjávarútvegs í Noregi. Þótt telja megi endurgreiðslur af þessu tagi til ríkisstyrkja eru þær ekki það háar að það þær hafi alveg komið í veg fyrir fyllt sé á tanka skipa í þessum löndum. Einnig voru áður styrkir veittir til rafvæðingar minni báta og þjónustubáta í fiskeldi en þessir styrkir runnu sitt skeið á síðasta ári.
Engin veiðigjöld
„Noregur hefur verið þekktur fyrir háa styrki til landbúnaðar og fiskveiða en styrkjakerfi til sjávarútvegs var aflagt í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Hér er ríkisstofnun sem heitir Innovation Norge sem veitir lán til fiskiskipa en það eru þá lán á svipuðum vöxtum og bankar veita. Það er líklega allt og sumt. Það er því ekki rétt að íslenskur sjávarútvegur sé í óréttlátri samkeppni við ríkisstyrktan sjávarútveg í Noregi eins og kannski sumir vilja halda fram,“ segir Gunnar.
Gunnar segir norsk sjávarútvegsfyrirtæki greiða 22% fyrirtækjaskatt en þar eru ekki veiðigjöld heldur greiðir útgerðin þann kostnað sem leggst til við opinbert eftirlit og þjónustu við sjávarútveginn, en einnig ákveðið hlutfall til markaðssetningar og þróunar/rannsókna innan greinarinnar. Í Noregi eru ekki aflagjöld eins og tíðkast á Íslandi sem taka mið af aflaverðmætum. Þar eru greidd hafnargjöld fyrir hvern sólarhring við bryggju sem fara eftir ákveðnum töxtum sem að öllu jöfnu miðast við stærð skips.

„Að öllu jöfnu er ekki heimilt að landvinnsla sé meirihlutaeigandi að útgerð. Eigandi þarf sjálfur að stunda veiðarnar. En nokkur fyrirtæki sem hafa verið að gera það gott undanfarin ár eiga allt að 49% hlut í skipum í strandflotanum.“
Útgefið lágmarksverð
Gunnar segir að verð á bolfiski og krabba ákvarðist annars vegar á markaði en þá með viðmiðun af lágmarksverði sem Norges Råfisklag gefur út. Yfirleitt er kaupverð nokkuð yfir þessu lágmarksverði, en ekki alltaf þó. Stofnunin hefur umsjón með allri sölu á þorski/bolfiski, smáhvölum og skelfiski sem veiddur er frá vesturströnd Noregs, frá Norðurmæri til Finnmerkur, alls nálægt um milljón tonn á ári. Útgerðum og landvinnslu er skylt að tilkynna Norges Råfisklag um allar sölur og kaup á fiski sem veiðist norðan 62 breiddargráðu, þ.e.a.s. í Noregshafi og Barentshafi þar sem bolfiskveiðar Norðmanna eru að langmestu leiti. Brot af andvirðinu rennur til stofnunarinnar til reksturs eftirlits og utanumhalds með fisksölunni og uppgjöri til sjómanna/útgerða. Norges Råfisklag semur við landvinnsluna um lágmarksverð á helstu bolfisktegundum. Undanfarin tvö til þrjú ár hafa vegna aukinnar eftirspurnar, verð verið nokkuð yfir lágmarksverði. Verð er endurskoðað á nokkurra mánaða fresti og tekur mið af markaðsaðstæðum.
Umtalsverður hluti aflans óunninn til Evrópu
Gunnar segir að umtalsverður hluti aflans, sérstaklega á vetrarvertíðinni, sem stendur yfir frá janúar til apríl, fari óunninn á markaði í Evrópu, sá fiskur sem Norðmenn kalla skrei. Það er gönguþorskur úr Barentshafi sem hrygnir við Lofoten og þar fyrir norðan. Stórar vinnslur eins og Nergård og Lerøy eru með eigin togaraflota, en kaupa líka fisk af strandveiðiflotanum. Þegar heimild var gefin til landvinnslunnar að hún mætti eiga skip, fylgdi því sú kvöð að ákveðið hlutfall aflans skyldi unnið í landi. Í þessu fólust þau sjónarmið að halda uppi vinnslu á fiski í hinum dreifðu byggðum Noregs, en þetta á sér nokkra sögu og sumar útgerðir hafa keypt sig frá þessum kvöðum í seinni tíð.