Rúnar segir vel hafa veiðst á Gullver NS-12 undanfarnar vikur. Síðasti túr skilaði nærri hundrað tonna afla, mest var það þorskur og ýsa. Þetta var síðasti túr Rúnars með skipinu

Hann er búinn að vera á skipinu síðan 1983, þegar það kom nýtt til landsins. Þar á undan var hann í sex ár á Gullberginu en byrjaði fyrst á gamla Gullver áður en hann fór á Gullberg.

„Ég var í eitt sumar á gamla Gullver, hef verið svona 18 eða 19 ára þá,“ segir Rúnar.

Skipið er þar með orðið eitt af elstu skipum íslenska togaraflotans. Rúnar segir þennan togara hafa staðið sig vel alla tíð, enda hafi þess verið gætt að halda honum vel við. Nú sé til dæmis verið að taka upp gírinn, og þess vegna sé svolítið stopp.

Rúnar segist ekki alveg vita hvað hann ætli að taka sér fyrir hendur núna, en sjómennskunni sé að minnsta kosti er lokið.

„Ég ætla svona að sjá aðeins til hvað verður,“ segir hann, en hann er kominn nokkuð á sjötugsaldur.

Svolítið einhæfir

Hann segir að aflast hafi vel undanfarið.

„Það gekk samt frekar illa framan af hausti en svo búið að vera ágætt núna í nóvember og desember.“

Eins og aðrir Austfjarðatogarar heldur Gullver sig mest við sömu miðin, skammt utan heimahafnar.

„Við erum svolítið einhæfir, alltaf hérna fyrir austan. Hérna á Glettingi og Tangaflaki og Gerpisgrunni og aðeins suður af.“

  • Rúnar L. Gunnarsson skipstjóri. MYND/Þorgeir Baldursson

Síldarvinnslan keypti Gullver árið 2014 og hefur gert skipið út síðan, en félögin sameinuðust árið 2018. Í sumar var skipið tekið í slipp á Akureyri og málað í dökkbláum lit Síldarvinnslunnar.

„Mér finnst hann venjast ágætlega, þessi litur. En ég er ekki viss um að allir séu sammála mér,“ segir Rúnar, enda var rauði liturinn búinn að vera einkennislitur Gullvers áratugum saman. Rúnar man þó eftir því að þegar skipið kom nýtt til landsins árið 1983 var það einmitt dökkblátt, svipað og nú er orðið.

Meiri kvóti

Það var sama útgerðin, Gullberg ehf., sem gerði Gullver út þangað til Síldavinnslan keypti skipið. Eigendur voru þeir Ólafur M. Ólafsson og Jón Pálsson sem báðir eru látnir fyrir mörgum árum. Þeir stofnuðu félagið árið 1963 og Jón var skipstjóri, fyrst á Gullbergi en frá 1972 á gamla Gullver.

Börn Ólafs áttu útgerðina fyrstu árin eftir fráfall föður þeirra, en seldu síðan til Síldarvinnslunnar.

Rúnar segir tímann á Gullver hafa reynst sér vel.

„Þetta hefur verið fínn tími. Ég hef sloppið alveg áfallalaust í gegnum þetta, er það ekki best?“

Hann segir haginn raunar hafa vænkast töluvert eftir eigendaskiptin.

„Það kom miklu meiri kvóti, og var allt betra þannig. Við fengum að veiða miklu meira.“

Mannaskipti hafa ekki verið mjög tíð. Sama áhöfnin segir Rúnar að verið lengi við störf og allt séu það því karlar sem hann þekkir orðið vel, „en það er aðeins farið að heltast úr lestinni núna.“

Hafnarvörður í eitt ár

Sjálfur tók Rúnar sér reyndar ársleyfi fyrir nokkrum árum og var þá hafnarvörður á Seyðisfirði í eitt ár.

„Ég vildi bara prófa eitthvað nýtt. Ég var búinn að vera svo lengi í þessu og bað um eitt ár í frí til að prufa. Svo ákvað ég að fara til baka, þegar það ár var liðið.“

Hann segist ekki alveg muna hvað dró hann á sjóinn upphaflega strax á unglingsárum.

„Ég veit ekki hvað það var, eru það ekki bara tekjur eða eitthvað svoleiðis?“

Gullver NS er 674 tonna ísfisktogari, 49,9 metra langur og 9,5 metrar á breidd, smíðaður í Noregi árið 1983 fyrir útgerðarfélagið Gullberg.

Fyrirtækjasamsteypa Síldarvinnslunnar gerir út fjögur bolfiskveiðiskip, Gullver NS frá Seyðisfirði, Blæng NK frá Neskaupstað og Bergey VE og Vestmannaey VE frá Vestmannaeyjum. Vestmannaeyjaskipin eru bæði í eigu Bergs-Hugins og rauð á litinn, en Síldarvinnslan keypti Berg-Hugin árið 2012.

Síldarvinnslan er nú þriðji stærsti kvótahafi á Íslandi með alls 135 þúsund tonna aflaheimildir, sem samsvarar 33 þúsund þorskígildistonnum.