„Ísafjarðardjúp er fullt af hval, ekki bara hrefnu. Þetta hefur haft mjög neikvæð áhrif á viðgang staðbundins stofns rækju í Ísafjarðardjúpi,“ segir Gunnar Torfason, eigandi útgerðarfélagsins Tjaldtanga, sem fengið hefur leyfi til hrefnuveiða næstu fimm árin.
Veiðislóðirnar segir Gunnar aðallega munu verða í Ísafjarðardjúpi. Hvalir þar séu í því æti sem sé á svæðinu. Þetta eigi ekki aðeins við um Ísafjarðardjúp heldur firði landsins almennt þar sem séu meðal annars afar mikilvægar uppeldisstöðvar fyrir bolfisksseiði.
Tengsl rækju og hvala
„Þessi hvalagengd við strendur Íslands og í Ísafjarðardjúpinu er að hafa gríðarleg áhrif á staðbundna stofna eins og rækjuna. Það voru hrefnuveiðar leyfðar í áratugi og við veiddum rækju í Ísafjarðardjúpi í áratugi. Núna síðustu árin höfum við ekki verið að veiða og þá hefur rækjustofninum í Ísafjarðardjúpi hrakað,“ bendir Gunnar á. Þarna séu tengsl á milli en hversu sterk þau séu verði vísindamenn að kanna.
„Ég býst við að vísindasamfélagið muni fagna þessum veiðum því munum taka alls kyns sýni svo við fáum betri vísindaleg gögn. Það eru ríkar kröfur til sýnatöku við veiðarnar þannig að vísindasamfélagið fær mikilvægar upplýsingar með veiðunum,“ segir Gunnar.
Veiðarnar verða stundaðar á Halldóri Sigurðssyni ÍS 14 sem er fimmtíu ára tog- og hrefnuveiðibátur sem Gunnar kveður áður hafa veitt hrefnur í áratugi. Hann telji að veiðarnar muni að einhverju leyti bæta stöðu staðbundinna stofna í Ísafjarðardjúpi. Það muni tíminn leiða það í ljós en tveggja ára veiðibann á rækju í Ísafjarðardjúpi hafi haft gífurlega neikvæð áhrif á rekstur Tjaldtanga.
Vinnsla í Ísafjarðarbæ
Tvö önnur fyrirtæki, sem Gunnar segir einnig vera í Ísafjarðarbæ, sóttu einnig um hrefnuveiðileyfi. Hann reikni með að þeim verði einnig veitt leyfi þegar þau uppfylla kröfur. Sameiginlega megi þau veiða 217 hrefnur næsta sumar í samræmi við við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.
„Það eru gerðar gríðarlegar kröfur til þeirra sem stunda veiðarnar,“ segir Gunnar. Það eigi bæði við um menntun starfsfólks og útbúnaðinn.
Hrefnunum verður landað í Ísafjarðarbæ og unnar þar í neytendavænar pakkningar. „Markaðshorfur eru ágætar hér heima á Íslandi,“ segir Gunnar um væntanlega eftirspurn.