Seðlabankinn hefur fellt niður mál gegn Kaldbaki ehf, dótturfélagi Samherja, eftir 60 mánaða rannsókn. Þetta kemur fram í bréfi til starfsmanna Samherja frá stjórnendum þess sem birt er á vefsíðu fyrirtækisins. Þar segir að með ákvörðuninni hafi Seðlabankinn lokið málum gegn Samherja og tengdum félögum.
Í bréfinu segir m.a.: „Það er okkur sönn ánægja að upplýsa að Seðlabankinn hefur loksins viðurkennt að ekkert var hæft í ásökunum hans á hendur Kaldbaki ehf., dótturfélagi Samherja. Hefur Seðlabankinn því fellt niður málið eftir tæplega 60 mánaða langa rannsókn. Rétt er að geta þess að málið varðaði tvær bankafærslur, þar af var önnur færslan upp á 1.500 norskar krónur (19.700 íslenskar krónur). Öll gögn sem bankinn þurfti í málinu hafði félagið afhent bankanum að beiðni hans. Þau voru ekki haldlögð í húsleitinni. Fyrir þetta kærði Seðlabankinn í tvígang til lögreglu.
Með þessari ákvörðun hefur Seðlabankinn loksins lokið málum gegn Samherja og tengdum félögum. Eftir stendur að fyrir héraðsdómi Reykjavíkur er nú rekið ógildingarmál vegna óréttmætrar sektar sem Seðlabankinn lagði á Samherja hf. í september á þessu ári. Erum við bjartsýn á að fullnaðarsigur fáist einnig í því máli.“
Og ennfremur segir: „Það er von okkar að menn verði látnir axla ábyrgð á tilhæfulausum og afar kostnaðarsömum aðgerðum undanfarinna ára og breytingar gerðar í stjórnsýslunni þannig að svona lagað geti ekki endurtekið sig, hvorki gagnvart okkur eða öðrum.“
Sjá nánar á vef Samherja.