Samtökin Sea Shepherd sem þekkt eru fyrir harðvítuga baráttu gegn hvalveiðum ætla ekki að beina spjótum sínum að hvalveiðum Japana í Suður-Íshafinu í ár heldur stefna öllum flota sínum, samtals níu skipum, í Norður-Atlantshafið.

Frá þessu er skýrt á vef færeyska útvarpsins og vísað í ástralska ríkisútvarpið ABC, sem segir að Sea Shepherd ætli að leggja til atlögu við hvalveiðiskip við Noreg og Ísland. Ekki sé minnst á Færeyjar í fréttinni en ætla megi að einhver skipanna muni koma við þar eins og í fyrra.

Þetta er í fyrsta sinn í tíu ár sem Sea Shepherd fer ekki í herferð gegn hvalveiðum Japana, segir ennfremur í fréttinni.

Á færeyska vefnum portal.fo segir að Sea Shepherd hafi ekki kunngert opinberlega hvað samtökin hyggist fyrir í sumar og hafi engu viljað svara þegar norski vefmiðillinn Nord24 leitaði eftir því. Hins vegar komi fram í yfirlýsingu norsku strandgæslunnar að hún búi sig undir það að sumarið verði krefjandi, bæði fyrir hvalveiðimenn og strandgæsluna.