Í dag verður 17. árgangur Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna útskrifaður. Um er að ræða 19 nema frá 15 löndum, en til þessa hafa þá alls lokið námi við skólann 305 einstaklingar frá 51 landi. Nemarnir koma frá Afríku (5), eyríkjum í Karíbahafinu (5), Asíu (7), við Indlandshaf (1) og Austur Evrópu (1). Í ár eru 9 konur í hópnum, en að meðaltali er þátttaka kvenna tæp 40%.

Skólinn er rekinn af Hafrannsóknastofnun, í nánu samstarfi við Matís, Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri og Háskólann á Hólum, en auk þeirra koma fjöldi annarra stofnana og fyrirtækja að starfseminni með einum eða öðrum hætti. Starfsemin er að mestu leyti fjármögnuð sem hluti af framlögum Íslands til þróunarsamvinnu, en samstarf á sviði sjávarútvegsmála hefur verið sérstakt áherslusvið í þróunarsamvinnu Íslendinga frá upphafi.

Skólinn býður upp á sex mánaða nám og starfsþjálfun á framhaldsstigi fyrir fagfólk og sérfræðinga frá þróunarlöndunum. Að auki tekur Sjávarútvegsskólinn þátt í að þróa og halda styttri námskeið í samstarfslöndum, þá oftast í samstarfi við fyrrum nemendur og stofnanir þeirra. Á síðasta ári voru haldin þrjú slík námskeið, tvö í Afríku (Tansaníu og Namibíu) og eitt í Víetnam.

Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunar.