Í makrílleiðangri sem nú stendur yfir á Árna Friðrikssyni rákust leiðangursmenn tvisvar á túnfiskvöður sem er óvenjuleg sjón á Íslandsmiðum. Frá þessu er greint í nýjustu Fiskifréttum.
,,Fyrri túnfiskvaðan sást vestur af landinu en seinni vaðan tæpar 60 mílur suður af Vestmannaeyjum. Við sáum hana rétt tilsýndar og hún skipti sér í tvennt. Við ætluðum að sigla að annarri þeirra en þá köfuðu fiskarnir. Við urðum ekki varir við túnfisk á þessum slóðum í leiðangrinum í fyrra og reyndar hef ég ekki séð túnfisk vaða hér fyrr,“ sagði Sveinn Sveinbjörnsson leiðangursstjóri í samtali við Fiskifréttir.
Þessa má geta að japönsk túnfiskveiðiskip stunduðu hér tilraunaveiðar á túnfiski í samstarfi við íslensk stjórnvöld við og rétt innan landhelgislínunnar suður af landinu í nokkur ár á 10. áratugnum og einnig á fyrstu árum þessarar aldar. Nokkur íslensk skip reyndu veiðar á túnfiski á þessum árum en ekki varð framhald á því. Íslendingar eiga rétt á túnfiskkvóta sem lítið sem ekkert hefur verið nýttur.