Stuttu fyrir jól tók Geir Zoëga við skipstjórninni á Polar Ammassak stuttu eftir að grænlenska útgerðin Polar Seafood keypti skipið frá Danmörku. Geir þekkti vel til um borð í skipinu, enda hafði hann áður verið þar við stýrið.

„Þetta er voða notalegt, heimilislegur bátur,“ segir Geir. „Þetta er gamli Amaroq. Ég var með hann þennan tíma sem við áttum hann. Það lá beinast við að ég kæmi hingað aftur alla vega út loðnuvertíðina.“

Bæði grænlensku skipin, Polar Ammassak og Polar Amaroq, hafa verið á loðnuveiðum fyrir norðaustan land undanfarnar vikur, þar á meðal yfir jólin.

„Við fórum út á þorláksmessu, en lentum reyndar í smá brasi í starti og þurftum að fara inn aftur og láta gera við smávegis hjá okkur. Það er bara eins og það er. Byrjuðum ekki á veiðum fyrr en 26. En það gekk vel hjá báðum skipunum, Amaroq landaði tvisvar.“

Fínasta veiði

Aflabrögðin segir hann hafa verið góð.

„Veðrið var að trufla okkur í rúman sólarhring en svo var bara fínasta veiði. Við vorum að fá eitthvað frá 700 tonnum og niður í svona 400 yfir daginn, en mikið minna á nóttunni nema síðustu nóttina áður en við fórum þá voru 150 tonn sem er það besta. Manni fannst svona eins og það væri að aukast veiðin á nóttunni.“

Báturinn kom með fullfermi í land, um 2000 tonn. Geir segir loðnuna sem veiddist hafa verið fína.

„Við vorum ekki fremst í göngunni, og þær voru svona 40 til 44 kílóið. Sem er allt í lagi. Það er eitthvað annað sunnan við okkur eða uppi á grunnunum, en við vorum ekki fremst í henni. Það var ekkert mikil ferð á henni, eitthvað aðeins austurslag ef eitthvað var. Svo var alltaf að bætast í.“

Rétt misstu af Skaupinu

Skipinu var siglt í höfn í Neskaupstað á gamlárskvöld klukkan 23.

„Við rétt misstum af skaupinu en náðum að skjóta upp.“

Íslensku skipin eru vanalega ekki að veiðum yfir hátíðarnar, en Geir segir að áhöfninni hafi bara liðið vel.

„Við áttum mjög hugguleg jól og vorum lausir við covidið, sko. Það var aðeins sárabót að sleppa við það. Það voru allir með covid í fjölskyldunni um jólin. Svo var líka ágætt að hafa vítt til veggja, það voru ekkert margir á miðunum. Það voru bara við.“

Eftir að í land var komið la þó ekkert á að sigla út aftur. Löndun hófst ekki strax. Polar Amaroq landaði á sunnudag og síðan tók Polar Ammasak við og hóf löndun á þriðjudag.

„Það var lokað í bræðslunum og við vorum ekkert að stressa okkur heldur út af veðurspá.“

Geir hafði ætlað út strax á mánudagskvöld, þegar búið væri að landa, en frestaði því vegna þess hve ölduspáin var leiðinleg. Báðir Grænlendingarnir sigldu svo úr höfn á þriðjudag til að ná sér í meiri loðnu.

Veðrið ræður

Bæði skipin eru í eigu grænlensku útgerðarinnar Polar Seafood, sem Síldarvinnslan á þriðjung í. Geir segir að þótt íslensku skipin séu yfirleitt í höfn yfir jólin þá hafi Grænlendingarnir ekki þann háttinn á.

„Skipin eru bara á sjó. Í Grænlandi er það vaninn. Við höfum ekki gert það en við ákváðum að gera það núna til að létta aðeins á. Það er svo mikill kvóti, verður nóg að gera. Þannig að við ákváðum bara að gera það og menn voru sammála því.“

Hann segir veðrið ráða því hvernig gengur að veiða upp í þann mikla kvóta sem gefinn var út fyrir þessa loðnuvertíð.

„Það er veðrið sem ræður því. Ef það verður okkur hagstætt þá gengur þetta vel, en ef það verður erfitt þá verður þetta erfitt. Menn verða bara að vona að þessum lægðagangi linni, sem er í kortunum núna.“

„Grænlendingarnir“ tveir veiða þó ekki úr íslenska kvótanum, heldur þeim grænlenska.

„Þó Síldarvinnslan eigi einn þriðja í okkur þá er það Polar Seafood sem á meirihlutann og ræður ferðinni. Ég heyri undir Grænlendinga.“